136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

273. mál
[16:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Lýðræðismálin eru gríðarlega mikilvæg í samfélagi okkar og líka í heimshluta okkar. Lýðræðismálin eru nokkuð sem á að vera í stöðugri umræðu og stöðugri þróun enda ekki í föstu formi sem hægt er að pakka inn í kassa heldur kemur lýðræðið í fljótandi formi og fjölbreytileikinn er endalaus.

Hv. þm. Helgi Hjörvar er 1. flutningsmaður þessa máls og ég er meðflutningsmaður og styð málið heils hugar. Hv. þingmaður leggur hér fram mjög athyglisverða leið til þess að þróa lýðræðið á Íslandi áfram. Ég fagna því mjög. Samfylkingin hefur frá stofnun flokksins sett lýðræðismálin mjög á oddinn. Ég minnist þess að á stofnfundi flokksins árið 2000 gerðum við lýðræðismálunum mjög hátt undir höfði og var þar t.d. sérstök málstofa um lýðræðismál og héldum við, sællar minningar, mjög merkilega og góða fundaröð um lýðræðismálin þar sem við fengum fræðimenn til að koma og ræða við okkur um lýðræðið og framtíðina.

Umræðan hér minnti mig á að árið 2003 lagði hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fram tillögu til þingsályktunar fyrir þingið um milliliðalaust lýðræði, sem var afar athyglisverð tillaga. Ég held, virðulegi forseti, að sú tillaga eigi mjög mikið erindi við okkur núna. Ég ætla að nota tækifærið að skora á hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson að leggja þetta mál aftur fram til umræðu þannig að við getum horft á lýðræðismálin í stóru samhengi og rætt þau hér.

Það mál var og er afar athyglisvert vegna þess að það sneri að því að Alþingi setti á stofn nefnd sem kannaði möguleika á að þróa milliliðalaust lýðræði og kosti rafrænna aðferða við framkvæmd þess. Nefndin átti einnig að kanna hvernig hægt væri að nota netið til þess að þróa milliliðalaust lýðræði og hafa þar að leiðarljósi öfluga persónuvernd við framkvæmd kosninga og þjóðaratkvæðagreiðslna á netinu. Nefndinni var jafnframt ætlað að kanna hvaða áhrif milliliðalaust lýðræði hefði á samfélagið efnahagslega, félagslega og stjórnmálalega, sérstaklega með tilliti til sveitarstjórnarstigsins og sveitarfélaganna þar sem auðvelt er að nota milliliðalaust lýðræði í miklum mæli.

Markmiðið með þessari þingsályktunartillögu var að þróa lýðræðið áfram í ljósi aukinnar menntunar og bætts aðgangs að upplýsingum og að gera Ísland að fánabera í framþróun lýðræðislegra stjórnarhátta þar sem hinn almenni borgari kemur í sem mestum mæli að meginákvörðunum samfélagsins. Það er einmitt krafa dagsins í dag. Fólk vill hafa bein áhrif á ákvarðanir sem teknar eru um kjör þeirra og stöðu og það sem hefur beint áhrif á líf þess.

Þegar við ræðum stefnumörkun um beint lýðræði er mikilvægt að hafa að leiðarljósi að hlutverk sveitarfélaganna verður sífellt mikilvægara og er þungamiðjan í allri nærþjónustu á Íslandi. Valddreifingu frá ríki til sveitarfélaga ætti því auðvitað að fylgja aukið milliliðalaust lýðræði þar sem valdið er fært frá Alþingi til nærþjónustunnar í sveitarfélögunum. Einnig yrði komið á samræðu borgaranna við stjórnvöld með innleiðingu netsins í lýðræðisþjóðfélagi okkar þar sem borgarar landsins gætu lagt inn hugmyndir og verið virkir þátttakendur við stjórn landsins.

Ég vil nefna það hér þegar við ræðum sveitarstjórnarstigið og lýðræðismálin að krafa er um að þjóðin, fólkið, bæjarbúar, komi í auknum mæli að málum þegar teknar eru stórar ákvarðanir í sveitarfélögum og á landsvísu. Það var t.d. til mikillar fyrirmyndar og gott dæmi um það hvernig lýðræðið virkar í sveitarfélögum þegar Hafnarfjarðarbær boðaði til kosninga um stækkun álversins í Straumsvík. Ég tel að sú kosning hafi verið til fyrirmyndar þar sem fólkið var spurt að því hvernig það vildi sjá bæinn sinn þróast.

Breytt hlutverk sveitarstjórna kallar á nýjar reglur þar sem veigamiklar ákvarðanir eru teknar innan þeirra og íbúalýðræði felur í sér lausn á því. Fjölmörg sveitarfélög hafa tekið mjög merkileg skref í þeim efnum. Ég held að við verðum nú að horfa á lýðræðismálin í stóru samhengi, ræða þau og spyrja okkur spurninga, þingmenn og þjóðin, hvernig við sjáum þeim málum best borgið og við eigum auðvitað að þróa það áfram. Ég held að það sem gerst hefur á undanförnum mánuðum og árum hafi sýnt okkur svo að ekki verður um villst að við þurfum að taka skref fram á við í þessum efnum. Ég held því að frumvarp hv. þm. Helga Hjörvars sé ekki bara eðlilegt heldur sjálfsagt. Auðvitað á það að vera sjálfsagt í samfélagi okkar að ef meiri hluti íbúa í sveitarfélagi eða meiri hluti kjósenda eða kjörgengra manna til alþingiskosninga vill að kosið verði aftur vegna ákveðinna aðstæðna sem skapast hafa í samfélaginu, að fyrir sé farvegur fyrir slíka kröfu. Þess vegna tel ég að þingið eigi að afgreiða þessu tillögu og samþykkja hana sem allra fyrst. Á sama tíma kalla ég eftir því að við ræðum lýðræðismálin í stóra samhenginu.