136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

273. mál
[16:55]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi að það væri til stór stjórnmálaflokkur í landinu sem hugsanlega gæti, ef farið væri niður með prósentuna, kallað fram kosningar ef hægt væri að kalla saman alla þá aðila sem í þeim stóra flokki eru til að boða til kosninga. Mér segir svo hugur um að þeir sem eru flokksbundnir í þeim ágæta flokki, Sjálfstæðisflokki, séu á milli 50 og 60 þúsund Íslendingar. Án efa munu allir aðrir stjórnmálaflokkar telja það ótækt og þá prósentu of lága þannig að við erum að tala um einhvers staðar á bilinu 40–50% ef sá flokkur á ekki að vera fær um að kalla fram kosningar ef hann er óánægður með það sem fram fer í landinu.

Ég held að menn verði að skoða þetta mjög vel. Ég vil frekar hafa prósentuna hærri en lægri vegna þess að þetta er aðhald en þetta er tæki sem aldrei má undir nokkrum kringumstæðum misnota. Þess vegna vil ég heldur hærri prósentu en hún verður að vera raunhæf ef á að vera möguleiki að nýta tækið.