136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

15. mál
[17:42]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið sérkennilegt að ræða þessi mál út frá þessu vegna þess að í lögum um stjórn fiskveiða stendur t.d. að allur fiskur í sjónum sé þjóðareign. En það er ekki verið að tala um það, það er verið að tala um að útgerðarmenn eigi nýtingarréttinn, geti leigt hann, selt hann og veðsett. Í þessu tilfelli er lítið gagn að því að fá það inn í stjórnarskrána að fiskurinn í sjónum sé þjóðareign, af því að það er í lögum um stjórn fiskveiða og það er líka í lögum um stjórn fiskveiða að hann myndi aldrei eignarrétt. En málið snýst ekkert um það. Útgerðarmenn segja: Við höfum nýtingarréttinn, við megum leigja, veðsetja og selja nýtingarréttinn. Það er það sem koma þarf í veg fyrir. Menn tala hér eiginlega um sitt hvort málið. Enginn útgerðarmaður þrætir fyrir það að þjóðin eigi ekki fiskinn í sjónum og megi eiga fiskinn í sjónum. Gjafakvótakerfið byggir á nýtingarréttinum, eignarhaldinu á nýtingarréttinum og þeim möguleika að geta leigt og selt, á þeirri forsendu að þeim var úthlutað þessu ókeypis í upphafi sem þeir geta svo braskað með. Við megum ekki gleyma því að bankahrunið og þær hörmungar sem yfir þjóðina hafa dunið upp á síðkastið, síðustu fimm mánuði frá því að bankarnir fóru í þrot, liggur í því að við leyfðum mönnum að braska með veiðiheimildir, leigja, selja og veðsetja.