136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

listaverk í eigu Landsbanka Íslands, Kaupþings og Glitnis.

100. mál
[18:02]
Horfa

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir stuttu frumvarpi til laga um listaverk í eigu Landsbanka Íslands, Kaupþings og Glitnis, sem ég flyt ásamt tveimur öðrum hv. þingmönnum sem þá voru, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og Bjarna Harðarsyni. Eins og kunnugt er hefur Bjarni Harðarson vikið af þingi síðan málið var lagt fram og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er nú hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, en er engu að síður flutningsmaður málsins.

Í frumvarpinu, sem eru aðeins þrjár greinar, er mælt fyrir um að öll þau listaverk verði eign ríkisins sem voru í eigu Landsbanka Íslands, Kaupþings og Glitnis við gildistöku laga nr. 125 frá 7. október 2008, svonefndra neyðarlaga, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Sama gildir um þau listaverk sem nú kunna að vera eign þeirra nýju bankastofnana sem stofnaðar hafa verið um hluta af starfsemi bankanna þriggja.

Í 2. gr. er kveðið á um að listaverkin skulu vera áfram almenningi til sýnis innan lands í viðskiptabönkunum eftir því sem unnt er. Listasafn ríkisins fari með yfirumsjón verkanna í samráði við bankana, annist skráningu þeirra og efni til kynningar á verkunum.

Í 3. gr. er kveðið á um að lög þessi öðlast þegar gildi.

Tilefni þessa máls er að bankarnir þrír sem nefndir eru, komust í þrot og ríkið yfirtók innlenda starfsemi þeirra og færði í ný hlutafélög sem bera sambærileg heiti og gömlu bankarnir þrír. Með í flutningnum eru listaverkin sem voru í eigu þessara þriggja banka og munu þau nú öll vera í eigu nýju bankanna og þar með í eigu ríkissjóðs.

Á sínum tíma þegar bankarnir voru einkavæddir í upphafi aldarinnar varð umræða um listaverkin og söfnin sem voru í eigu bankanna. Upp komu þau sjónarmið, m.a. hér á Alþingi, að þau yrðu ekki með í sölunni eða einkavæðingunni. Niðurstaðan varð hins vegar sú að svo varð þannig að öll þessi merku söfn hurfu úr opinberri eigu á þeim tíma. Eigendur bankanna, frá einkavæðingu og fram til haustdaga sl., stóðu sig vel í því að varðveita söfnin og auka við þau. Talið er, samkvæmt fréttum í fjölmiðlum í október sl., að listaverkin séu alls um 4.000 í bönkunum þremur, um 1.700 verk í eigu Landsbankans, í safni Kaupþings voru um 1.200 verk og tæplega 1.100 í eigu Glitnis.

Flutningsmenn frumvarpsins leggja áherslu á að nýta tækifærið sem gefst meðan bankarnir nýju eru allir í opinberri eigu því að það er viðbúið að svo verði ekki til framtíðar litið. Það er nokkuð ljóst að bankastarfsemin verður seld eða einkavædd á nýjan leik þó að vonandi læri menn eitthvað af því sem gerst hefur og standi þannig að málum þegar fram líða stundir að vel takist til. Þá þykir flutningsmönnum rétt að sjá til þess að listaverkin verði áfram eign ríkisins eða eign þjóðarinnar. Um það er frumvarpið flutt og það er tilgangur þess.

Þó að við leggjum mikla áherslu á opinbera eigu á þessum miklu listaverkum er rétt að taka skýrt fram að eigendur bankanna þriggja, meðan þeir voru í einkaeigu, stóðu sig vel í þessum efnum og það er alls ekkert sjálfgefið að framtíðareigendur bankanna muni standa sig illa, það getur vel gerst að þeir standi sig. Hitt er rétt að benda á að það þarf ekki nema einn gikk í hverri veiðistöð og það þarf ekki nema einn eiganda sem hefur lítinn áhuga á þessum verkum eða eiganda sem hefur mikinn áhuga á þeim. Hann er kannski erlendur aðili og flytur þau úr landi sem hann hefði þá fullt leyfi til væri hann eigandi bankanna því að ég geri ráð fyrir því að erlent eignarhald á bönkum komi til. Það er leyfilegt og búið að vera allar götur síðan samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið kom í fullt gildi. Af hálfu okkar flutningsmanna er þetta varúðarráðstöfun til að tryggja hagsmuni þjóðarinnar í þessum efnum og tryggja varðveislu á þeim menningararfi sem verkin eru.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að orðlengja frekar innihald og tilgang málsins. Ég legg til að málið gangi til 2. umr. þegar þessari umræðu er lokið og til hv. viðskiptanefndar, sem ég hygg að sé rétt af því að þetta eru eigur bankanna. Ég hlíti leiðsögn hæstv. forseta ef hann hefur skynsamlegri tillögu en ég legg til.