136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:19]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta viðskiptanefndar, en minni hlutann skipa hv. þingmenn Árni M. Mathiesen, Jón Magnússon, Guðfinna S. Bjarnadóttir og sá sem hér stendur, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni.

Í byrjun vil ég taka undir ýmislegt í ræðu hv. formanns nefndarinnar, Álfheiðar Ingadóttur. Ég vísa þá ekki síst til upphafskafla ræðu hennar þar sem hún fjallaði um þau áföll sem dunið hafa yfir hér á landi og erlendis á sviði fjármálamarkaðar og þörfina á því að taka til endurskoðunar löggjöf og skipulag stofnana sem starfa á því sviði. Þetta er endurskoðun sem fer fram eða er hafin víða um heim og það liggur fyrir að slík endurskoðun þarf að eiga sér stað hér á landi líka.

Í starfi nefndarinnar lögðum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins áherslu á að þessi mál, löggjöf um Seðlabanka Íslands, yrði skoðuð meira út frá þessum forsendum, út frá þessum víðtækari forsendum, að það væri ekki bara horft á efsta endann á skipuriti Seðlabankans í þessu sambandi heldur að það væri víðtækari skoðun. Ég vil árétta í tilefni af ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að sú skoðun, víðtækari skoðun á skipulagi eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði og víðtækari skoðun á löggjöf um Seðlabanka Íslands hefði verið sú nálgun sem við sjálfstæðismenn hefðum viljað í þessu máli. Þau sjónarmið komu hér fram af okkar hálfu við 1. umr. um málið og við ítrekuðum þau á fundum nefndarinnar.

Varðandi starf nefndarinnar tek ég undir þakkir formanns nefndarinnar til allra aðila sem komu að þessu máli. Ég tek undir þakkir til umsagnaraðila og þeirra sem komu sem gestir á fundi nefndarinnar. En það liggur fyrir að málið var unnið með miklum hraði í nefndinni. Það var gefinn afskaplega skammur frestur til umsagna og gestir urðu að koma oft á fundi nefndarinnar með mjög skömmum fyrirvara. Það er miður vegna þess að ég tel að mörg af þeim atriðum sem fjallað er um í frumvarpinu og raunar atriði í sambandi við löggjöf um Seðlabankann sem ekki er fjallað um í frumvarpinu hafi verið vel þess virði að fá greinargóða og upplýsta umræðu um það á grundvelli athugasemda sem ekki voru soðnar saman á einhverjum einum, tveimur, þremur sólarhringum. Ég hefði því talið til bóta ef gefinn hefði verið aðeins rýmri tími í þessu efni. Engu að síður eiga þeir þakkir skildar sem sendu umsagnir sem margar hverjar voru ítarlegar og höfðu að geyma fjölmargar gagnlegar athugasemdir og eins höfðu þeir gestir sem komu á fundi nefndarinnar margt til mála að leggja.

Ég tek undir það að starfsmenn nefndasviðs eiga þakkir skildar í þessu máli eins og svo oft áður og nefndarmenn lögðu sig fram, bæði meiri hluti og minni hluti. Ég vil hins vegar geta þess strax að við sjálfstæðismenn í nefndinni töldum að málið væri ekki orðið það þroskað í gær að ástæða væri að taka það út úr nefndinni heldur hefði verið rétt að taka sér þar meiri tíma og þess vegna áskiljum við okkur rétt til þess að óska eftir því að málið gangi til nefndar aftur milli 2. og 3. umr. þegar þessari umræðu lýkur. Við teljum að það séu með öðrum orðum ákveðnir þættir þarna sem þurfi að ræða nánar og teljum að það verði eingöngu til þess fallið að bæta málið.

Herra forseti. Ef ég vísa til nefndarálits minni hluta viðskiptanefndar þá getum við þess að frumvarp þetta á sér mjög sérstakan aðdraganda. Við myndun ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna var því lýst yfir að meðal forgangsmála hennar væri að skipta um yfirstjórn Seðlabanka Íslands og breyta lögum þannig að aðeins yrði um einn bankastjóra að ræða og að skipuð yrði sérstök peningastefnunefnd til fara með stjórntæki bankans í peningamálum. Það var raunar aðeins þremur dögum eftir myndun ríkisstjórnarinnar að frumvarp þetta var lagt fram á Alþingi og eins og við bentum á hér við 1. umr. bar það öll merki þess að vera unnið í miklum flýti og, að okkar mati, án eðlilegs undirbúnings.

Við undirbúning málsins var ekki um að ræða samráð af hálfu ríkisstjórnarflokkanna við aðra flokka á þingi, en slíkt samráð hefur undantekningarlaust átt sér stað í aðdraganda fyrri breytinga á lögum um Seðlabankann. Það var einnig augljóst að ekki hafði átt sér stað nægileg fagleg vinna við undirbúning frumvarpsins heldur var að mestu leyti um að ræða endurunnar breytingartillögur þingmanna Samfylkingarinnar frá því að seðlabankalögunum var breytt árið 2001. Við höfum ítrekað spurt um faglegan undirbúning málsins og hugsanlega aðkomu sérfræðinga að því, bæði í 1. umr. og á fundum viðskiptanefndar, en fátt hefur verið um svör. Þess vegna sögðum við og stöndum við það að ekki hafi komið á óvart að útkoman, sem birtist í frumvarpi forsætisráðherra hafi verið meingölluð, bæði í ljósi þess hvað frumvarpið tekur til afmarkaðra eða fárra þátta laga um Seðlabankann og einnig í sambandi við útfærslu einstakra greina þess. Ég met það svo að þetta síðarnefnda atriði hafi komið fram með mjög skýrum hætti í umfjöllun nefndarinnar þar sem langflestir umsagnaraðilar og gestir sem komu á fund nefndarinnar gerðu verulegar athugasemdir við útfærslu einstakra ákvæða. Það voru mjög umtalsverðar athugasemdir við eiginlega öll atriði sem í frumvarpinu var að finna. Ég segi að hinar fjölmörgu breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar leggur hér fram feli í raun í sér viðurkenningu á þessu, viðurkenningu á því að málið hafi verið flutt hér í þinginu ófullburða og óþroskað. Ég vil geta þess hins vegar eins og við getum um í nefndarálitinu að við teljum að flestar breytingartillögurnar sem meiri hlutinn flytur séu til bóta, verði til þess að bæta það frumvarp sem hér liggur fyrir. Hins vegar bendum við líka á að lengra hefði þurft að ganga í breytingum að ýmsu leyti.

Eins og ég hef getið um og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu tekur það aðeins til breytinga á stjórnskipulagi bankans og raunar bara æðsta stjórnskipulagi bankans. Það er, eins og við höfum ítrekað sagt, galli að mati okkar í minni hlutanum enda hafa fjölmargir bent á að endurskoðunar væri þörf á mun fleiri þáttum laganna en stjórnskipulaginu. Þannig hafa margir bent á að markmiðum bankans væru settar of þröngar skorður í núgildandi lögum þar sem í 3. gr. laganna segir að meginmarkmið bankans sé að stuðla að stöðugu verðlagi. Á það hefur verið bent í starfi nefndarinnar að eðlilegt væri að skoða þetta ákvæði en ekki reyndist áhugi hjá meiri hlutanum að fara í gegnum þá umræðu við afgreiðslu þessa máls. Á sama hátt hefur sjálf peningamálastefna bankans sætt gagnrýni úr ýmsum áttum en umfjöllun um hana var einnig vísað inn í framtíðina því að frumvarp þetta tengist ekki peningamálastefnunni sjálfri á neinn hátt. Það er bara verið að fjalla um þá formlegu ákvarðanatöku sem á sér stað um hana en ekki gert ráð fyrir neinum breytingum á peningamálastefnunni.

Ekki var heldur áhugi hjá meiri hluta nefndarinnar að fara í umræður um víðtækari skipulagsbreytingar hjá þeim stofnunum sem eftirlit hafa með fjármálamörkuðum hér á landi. Minni hluti nefndarinnar vakti athygli á hugmyndum sem fram hafa komið um hugsanlega sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins eða einhvers konar breytingum á verkaskiptingu þessara stofnana en ekki var vilji til að taka slíkar hugmyndir til umfjöllunar hjá nefndinni. Við spurðum gesti um það og þeir svöruðu misjafnlega eins og gengur. En við töldum að það væri eðlilegt í ljósi þess að við þurfum að skoða eftirlit með fjármálamörkuðum heildstætt að það væri litið á þennan þátt.

Það er okkar mat að viljaleysi ríkisstjórnarinnar og meiri hluta nefndarinnar til að skoða þessa og fleiri þætti seðlabankalaganna veki spurningar um tilgang þessa frumvarps. Yfirlýst markmið með flutningi þess er samkvæmt greinargerð að bregðast við þeim áföllum sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir á undanförnum mánuðum, ekki síst áföllum í sambandi við breytingar á fjármálamörkuðum, hérlendis sem erlendis. En í stað þess að skoða öll þau atriði sem til athugunar hljóta að koma sem raunveruleg viðbrögð við fjármálakreppunni er látið við það sitja að leggja til lagabreytingar varðandi stjórn Seðlabankans. Tilgangur þeirra breytinga er augljóslega eingöngu að ná því markmiði, sem líka kemur fram í greinargerð, að stuðla að verulegri uppstokkun og endurnýjun í yfirstjórn bankans. Það er ekki verið að skoða viðbrögð við fjármálavandanum, áföllunum. Það er bara verið að skoða toppinn á skipuritinu og stuðla að, eins og kemur fram í greinargerðinni, verulegri uppstokkun og endurnýjun í yfirstjórn bankans. Þetta setur frumvarpinu miklar takmarkanir og gerir það að verkum að það er ekki, að mínu mati, til þess fallið að ná þeim markmiðum sem við hljótum öll að vera sameinuð um, að við þurfum að bregðast við þeim áföllum sem dunið hafa á okkur með raunverulegri skoðun á lagaumgjörð og stofnanaskipan á fjármálamarkaði.

Í upphaflegu frumvarpi, svo ég fari í einstök efnisatriði og geti þeirra að nokkru, var gert ráð fyrir einum bankastjóra og ekkert fjallað um staðgengil hans. Þetta var eitt af þeim atriðum sem töluvert voru rædd í nefndinni, eins og kom fram í máli hv. formanns nefndarinnar, og er óhætt að segja að þetta atriði sætti töluverðri gagnrýni umsagnaraðila. Viðbrögð meiri hlutans eru þau að gera tillögu um aðstoðarbankastjóra sem skipaður verði með sama hætti og sömu skilyrðum og bankastjórinn. Vil ég taka fram að minni hlutinn telur þetta ótvírætt til bóta. Það er til bóta að það sé skýrt í lögunum hver er staðgengill bankastjórans og okkur finnst eðlilegt að hann beri titilinn aðstoðarbankastjóri þannig að staða hans sé skýr og mikilvægt er að skipun hans komi til með sama hætti og skipun bankastjórans sjálfs.

Það hefur verið rætt og kom fram við 1. umr. hvort til bóta væri að hafa einn bankastjóra en ekki þrjá. Það atriði er umhugsunarvert. Ýmsir hafa talið að það gæti verið til bóta að hafa þrjá bankastjóra sem allir hefðu sjálfstæða skipan, væru ekki hver öðrum háðir, og mynduðu þannig bankastjórn sem gæti tekið ákvarðanir á meirihlutagrundvelli, það væri ekki allt vald hjá einum manni. Á þessu stigi málsins og í umfjöllun nefndarinnar gerðum við ekki sérstakar athugasemdir við þetta. Hins vegar finnst mér rétt að geta þess að auðvitað eru ákveðin rök fyrir því að hafa bankastjórana fleiri en einn, að hafa þrjá bankastjóra sem eru jafnsettir hvað varðar skipun og skipunartíma og annað þess háttar, eru þar af leiðandi sjálfstæðir í sínum embættum þó að einn þeirra hafi stöðu formanns bankastjórnar og talsmanns bankans út á við. Við teljum að það geti verið rök fyrir þessu.

Í sambandi við þessa breytingu varðandi bankastjórann og aðstoðarbankastjórann tel ég ástæðu til að vekja athygli á að að nái breytingartillaga meiri hlutans fram að ganga verður í raun og veru minni breyting á skipulagi yfirstjórnar bankans en yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar gerði ráð fyrir. Í stað eins bankastjóra sem gegnir hlutverki formanns bankastjórnar og tveggja annarra bankastjóra koma einn bankastjóri og einn aðstoðarbankastjóri. Um er að ræða fækkun um einn í yfirstjórninni og breytingu á titlum. Breytingin er því ekki svo stór og gefur kannski ekki tilefni til að lýsa henni sem einhverri byltingu á þessu fyrirkomulagi.

Við gerum að umfjöllunarefni í nefndaráliti okkar skilyrði um menntun og hæfni bankastjóra. Við 1. umr. og í starfi nefndarinnar, bæði af hálfu nefndarmanna, gesta og umsagnaraðila, var gagnrýnt að í frumvarpinu væri lagt til að seðlabankastjóri skyldi hafa lokið meistaraprófi í hagfræði og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á peningamálum. Skilyrðið um meistarapróf í hagfræði var umdeilt og niðurstaða meiri hlutans var að koma til móts við þessi sjónarmið með því að víkka aðeins út skilgreininguna, menntunarkröfuna. Breytingartillaga meiri hlutans gerir, eins og komið hefur fram, ráð fyrir að seðlabankastjóri skuli hafa lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi, efnahags- og peningamálum. Þarna er búið að bæta við „eða tengdum greinum“ og síðan „þekkingu á fjármálastarfsemi“. Vissulega er þetta hvort tveggja til bóta og felur í sér útvíkkun á skilyrðum.

Við í minni hlutanum teljum þessa breytingu samt ganga of skammt og sérstaklega (Gripið fram í.) vegna þess að orðalagið „hagfræði eða tengdum greinum“ getur kallað á verulegan túlkunarvanda og spyrja má spurninga um tengsl einstakra háskólagreina við hagfræði. Almennt finnst okkur líka ástæða til að vekja athygli á því að margvíslegt háskólanám getur verið góður grunnur fyrir seðlabankastjóra, einkum, eins og gert er skilyrði um, að hann hafi víðtæka þekkingu og reynslu á þeim sviðum sem getið er um. Við teljum því eðlilegra að hafa ákvæðið enn opnara og vísa til háskólaprófs og víðtækrar þekkingar og reynslu á fjármálastarfsemi, efnahags- og peningamálum til að útiloka ekki hæfa einstaklinga sem ekki hafa menntun á háskólastigi sem fellur nákvæmlega undir skilgreininguna á hagfræði eða tengdum greinum, auk þess sem ég vísa til þess sem við sögðum um ákveðinn túlkunarvanda sem getur kallað á deilur einhvern tíma í framtíðinni. Við teljum að slík opin skilgreining væri í meira samræmi við löggjöf erlendis, enda hefur okkur ekki tekist að finna þess dæmi í lögum annarra ríkja að gerðar skuli sérstakar kröfur um tiltekna háskólamenntun. Breyting í þessa átt væri líka í samræmi við ábendingar margra umsagnaraðila, t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem í formlegri umsögn frá 12. febrúar sl. segir að venjulega séu ekki í lögum gerðar sérstakar menntunarkröfur til seðlabankastjóra heldur vísað til viðurkenndrar þekkingar og reynslu. Eins og komið hefur fram í umræðum í þinginu á síðustu dögum liggur það auðvitað fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hlýtur að hafa talsvert vægi í sambandi við þessa umræðu vegna þess að þar er saman komin mikil þekking, mikil alþjóðleg þekking á löggjöf um seðlabanka vítt og breytt um heiminn.

Reyndar má geta þess að í umsögn Seðlabanka Íslands kemur fram að í upphaflegum athugasemdum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við frumvarpið hafi sérstaklega verið tiltekið að embættispróf í lögfræði ásamt víðtækri reynslu væri fullnægjandi skilyrði. Þessar upphaflegu athugasemdir sem Seðlabankinn vísar hér til hafa hvorki fengist birtar opinberlega né verið unnt að fá þær afhentar viðskiptanefnd meðan á nefndarstarfinu hefur staðið. En þarna er um að ræða, eins og Seðlabankinn bendir raunar á, ákveðinn mismun milli þeirra upphaflegu athugasemda sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendi forsætisráðuneytinu og þeirrar formlegu umsagnar sem fram kom í störfum nefndarinnar.

Annar meginþáttur frumvarpsins er peningastefnunefndin. Það er hárrétt sem kom fram í máli formanns nefndarinnar, hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, að í dag er auðvitað starfandi peningastefnunefnd hjá bankanum þó að ekki sé getið um hana í lögum. Það er fjölskipað stjórnvald, þriggja manna bankastjórn, sem hefur atkvæðisrétt um ákvarðanir á sviði peningamála, en í aðdraganda þeirra ákvarðana eiga sér stað fundir í peningastefnunefnd þar sem fleiri sérfræðingar og yfirmenn bankans koma að eins og lýst er í gögnum sem lögð eru fram sem fylgiskjal með þessu nefndaráliti. Þar kemur fram að um er að ræða mjög skýrar verklagsreglur og málsmeðferð í sambandi við ákvarðanir á sviði peningamála. Þar er um að ræða ákvörðun sem tekin er á grundvelli umræðna í raunverulegri peningastefnunefnd og ákvörðunin síðan tekin af fjölskipuðu stjórnvaldi. Þannig að líka að þessu leyti er kannski ekki um þá grundvallarbreytingu að ræða með frumvarpinu sem gefið hefur verið til kynna. Það er ekki eins og um hafi verið að ræða ákvarðanir eins manns sem hafi haft gildi á vettvangi peningamála og nú eigi allt í einu að taka upp peningastefnunefnd. Hin raunverulega breyting er fólgin í því ákvæði að taka inn utanaðkomandi aðila í þessa peningastefnunefnd og gefa nefndinni sérstakt rými í lögunum.

Það hefur komið fram í umsögnum og athugasemdum og kom fram við 1. umr. málsins að seðlabankastjóri væri of einráður um skipanir í peningastefnunefnd, af því að gert var ráð fyrir því í upphaflegu frumvarpi að bankastjórinn sæti í nefndinni sjálfur ásamt tveimur af yfirmönnum bankans, sem auðvitað eru ráðnir af honum, og hins vegar tveimur utanaðkomandi sérfræðingum sem bankastjórinn veldi sjálfur. Gagnrýnt var að völdin lægju of mikið hjá bankastjóranum sjálfum og ýmsir umsagnaraðilar vöruðu við því að of mikið vald væri fært til eins manns í því sambandi.

Breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar gerir ráð fyrir að flytja nær allt skipunarvaldið til forsætisráðherra vegna þess að samkvæmt breytingartillögunni er gert ráð fyrir að forsætisráðherra skipi seðlabankastjórann sem situr í peningastefnunefndinni, aðstoðarseðlabankastjórann sem situr í nefndinni og tvo utanaðkomandi fulltrúa. Fimmti maðurinn er síðan í rauninni á áhrifavaldi bankastjórans sjálfs. Það má því segja að með breytingartillögunni sé verið að fara svolítið úr einum öfgum í aðrar. Í stað þess að reyna að finna jafnvægi þarna er sveiflan frá því að allt vald liggi hjá bankastjóranum í það að nær allt valdið, 80% af því, liggi hjá forsætisráðherranum.

Við vekjum athygli á því að þetta hljóti að vekja ákveðnar spurningar um sjálfstæði bankans, ekki síst þegar litið er til þess hve margir sem munu eiga sæti í nefndinni verða skipaðir af einum og sama forsætisráðherranum við gildistöku laganna. Þetta kemur kannski ekki eins mikið að sök vegna þess að gert er ráð fyrir því að í framtíðinni verði menn skipaðir á mismunandi tímum og þá hugsanlega af mismunandi forsætisráðherrum en á upphafspunktinum verður vald þess forsætisráðherra sem þá situr mjög mikið og hann getur haft mjög mikil og mótandi áhrif á þetta. Við reynum að nálgast þetta vandamál með því að leggja til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði, sem væri ákvæði til bráðabirgða, til að gera ráð fyrir því að í upphafi skipi bankaráðið annan tveggja sérfræðinga á sviði efnahags- og peningamála, þ.e. bankaráðið en ekki forsætisráðherra, þetta yrði einskiptisákvörðun og sú ákvörðun ætti að gilda til fjögurra ára.

Í nefndaráliti minni hlutans er líka vakin athygli á atriði sem við höfum rætt nokkuð í nefndinni og við í minni hlutanum höfum ekki komið með skýra lausn á en teljum að rétt að reyna að finna lausn á og það er varðandi skipti á yfirmönnum í bankanum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að muni eiga sér stað þegar lögin taka gildi. Breytingartillögur meiri hlutans gera ráð fyrir að núverandi bankastjórar láti af störfum þegar við gildistöku laganna og þá muni forsætisráðherra setja tímabundið bankastjóra og aðstoðarbankastjóra í störfin án auglýsingar. Þeir skuli gegna embætti þar til skipað hefur verið í stöðurnar á grundvelli auglýsingar og einnig að undangengnu mati þriggja manna hæfisnefndar sem hv. formaður nefndarinnar gerði vel grein fyrir.

Við höfum áhyggjur af því að þetta fyrirkomulag geti skapað langvarandi óvissu um stjórnun bankans því að við teljum ljóst að allt þetta ferli geti tekið langan tíma, frá nokkrum vikum og jafnvel upp í nokkra mánuði, og engin tímatakmörk eru í ákvæðinu á því hve bráðabirgðaskipunin á að gilda lengi. Við teljum mikilvægt að fara vel yfir möguleika í þessu sambandi til að unnt verði að tryggja sem kostur er stöðugleika í stjórn bankans. Þetta er með öðrum orðum vandamál sem við teljum að enn sé óleyst í sambandi við frumvarpið og nauðsynlegt sé að taka á þessu í starfi nefndarinnar áður en málið verður klárað á þinginu.

Eins og ég gat um leggjum við fram við 2. umr. tvær breytingartillögur sem lúta að þáttum sem ég hef þegar rakið. Til að gera langa sögu stutta gerir fyrri breytingartillaga okkar ráð fyrir að menntunarskilyrðin í ákvæðinu um seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra séu þau að þeir skuli hafa lokið háskólaprófi og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Við gerum ekki tillögur um aðrar breytingar á því ákvæði en þarna komum við til móts við það sjónarmið að menntunarskilyrðin eigi að vera nokkuð rúm. Hins vegar er það tillagan sem ég gat um áðan, að við fyrstu skipun peningastefnunefndar samkvæmt frumvarpinu skipi bankaráð annan tveggja utanaðkomandi sérfræðinga á sviði efnahags- og peningamála til fjögurra ára.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginþáttum í því nefndaráliti sem við ritum undir, ég og hv. þingmenn Jón Magnússon, Árni M. Mathiesen og Guðfinna S. Bjarnadóttir. Að lokum vil ég segja að þótt frumvarpið virðist taka ákveðnum breytingum til bóta í starfi nefndarinnar, teljum við ekki nægilega langt gengið í þeim efnum og skoða þurfi fleiri þætti í því sambandi. Ég ítreka líka það sem ég sagði áðan að við teljum að til að bregðast við þeim efnahagslegu áföllum og áföllum á fjármálamarkaði sem við höfum upplifað á undanförnum mánuðum væri nær að skoða málin í víðtækara samhengi, skoða fleiri þætti, fara yfir lögin að öðru leyti líka, bæði hvað varðar markmið bankans og hugsanlegt samspil við aðrar stofnanir á fjármálamarkaði. Ég vil geta þess að við teljum að slík athugun og slíkar breytingar gætu orðið til þess að gera stjórnkerfi peningamála og fjármála og eftirlitskerfi skilvirkara og betur til þess fallið að bregðast við þeim verkefnum sem það þarf að takast á við. Við teljum að sú afar takmarkaða nálgun sem gengið er út frá í frumvarpinu sé ekki nægileg og ekki endilega til þess fallin að ná þeim háleitu markmiðum sem sett eru með frumvarpinu og þess vegna gagnrýnum við þetta. Að síðustu tek ég aftur fram að hvað þau efnisatriði varðar sem tekið er á í frumvarpinu þá fara þau batnandi eftir því sem nefndin starfar lengur að málinu og er til þess fallið að leiða okkur a.m.k. fram hjá helstu pyttunum sem við blöstu að okkar mati þegar frumvarpið var lagt fram.