136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:29]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef mikinn skilning á því að hv. þm. Gunnar Svavarsson sem verkfræðingur vilji regla kerfið. En ég sé ekki alveg samhengið á milli starfsreglna nr. 1111 og þeirra atburða sem hann nefndi frá því fyrr í vetur og þessa frumvarps, hvort þeir atburðir sem hann vill svo ekki gagnrýna sérstaklega hafi verið í samræmi við starfsreglurnar og það að lögunum yrði breytt á þann hátt sem meiri hlutinn leggur til núna mundi endilega leiða til þess að starfsreglum nr. 1111 yrði breytt. Mér finnst ekki vera augljóst samhengi þar á milli. Það væri gott ef hv. þingmaður gæti upplýst mig aðeins betur um það þannig að ég félli betur að regluverkinu hjá honum.