136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:33]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sá hv. þingmann opna alla kassana þannig að það vantar ekkert inn í það. Það var bara rétt þarna í lokin sem mér fannst samhengið ekki alveg vera eins og það virtist í upphafi en hv. þingmaður leysti ágætlega úr því. Það er þá raunverulega ekkert samhengi á milli þeirra breytinga sem hér er verið að leggja til af hálfu meiri hlutans og umræddrar ákvörðunar frá því í vetur því að þessar breytingar munu ekki endilega, og þingmaðurinn staðfesti það, leiða til þess að starfsreglur nr. 1111 breytist. Þetta á auðvitað sérstaklega við ef maður horfir á þetta í því ljósi að upphaflega frumvarpið sem við höfum verið að fjalla um er allt öðruvísi en það frumvarp sem mun liggja fyrir eftir 2. umr. ef breytingartillögur meiri hlutans verða samþykktar. Þær byggjast á breytingartillögum frá því 2001. Það væri því raunverulega engin leið að setja hvorki frumvarpið né breytingartillögur meiri hlutans í samhengi við þessar ákvarðanir frá því í vetur. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að leysa úr þessu fyrir mig.