136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:37]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. nefndarformanni, hv. nefndarmönnum og starfsmönnum nefndarinnar fyrir ágætt samstarf. Talsverðum tíma hefur verið eytt í málið og í engu til sparað en það er hins vegar umfangsmikið og mikilvægt, þó að fleiri þætti hefði mátt skoða. Sérstaklega vil ég þó þakka öllum þeim fjölda sem mætti á fundi nefndarinnar og skilaði álitum til hennar. Talsverður bunki liggur fyrir um þetta frá ýmsum aðilum þar sem greinilegt er að menn hafa lagt sig mjög fram um að rýna í frumvarpið og reyna að finna leiðir til að bæta það og auðvitað sýnist sitt hverjum um það. Þess vegna held ég að þrátt fyrir allt hefði verið kostur ef við hefðum haft meiri tíma til að fara yfir málið og jafnvel gera á því fleiri breytingar en lagðar eru til við umræðuna, þó að auðvitað séu þær breytingar sem hér eru lagðar til mjög viðamiklar. Þótt ég segi að þetta sé mikilvægt mál og skipti máli og sé jafnvel umfangsmikið í efnahagslegu samhengi og í efnahagskerfinu er frumvarpið sem slíkt ekki mjög umfangsmikið. Það er ekki nema 14 greinar en meiri hluti nefndarinnar hefur hins vegar gert einar 17 breytingartillögur, 17 efnislegar breytingar, sem ég held að í öllu samhengi hljóti að teljast talsvert miklar breytingar á ekki stærra frumvarpi, sem hefur þó ekki verið lengur í meðförum þingsins en raun ber vitni.

Hins vegar vantar líka ýmislegt í umfjöllunina sem hefði mátt vera með og skiptir kannski meira máli í dag gagnvart þeim málum sem við stöndum frammi fyrir heldur en akkúrat þær greinar sem ákveðið var að taka nú til endurskoðunar.

Ég vil aðeins víkja að upphafsorðum hv. nefndarformanns og framsögumanns meiri hlutans, Álfheiðar Ingadóttur, þar sem hún talar sérstaklega um að tilgangurinn með frumvarpinu sé að verja sparifé landsmanna. Auðvitað má segja að peningastefna og tök Seðlabankans á peningamálum og ákvarðanirnar sem bankinn tekur í þeim efnum hafi áhrif á sparifé landsmanna og hvernig það ávaxtast. En á tímum eins og við höfum upplifað eru miklu fremur aðrir þættir í starfsemi Seðlabankans sem ráða því hvernig það varðveitist og eru það verkefni Seðlabankans sem snúa að fjármálastöðugleikanum og eru ekki til umfjöllunar í frumvarpinu og ekki hefur verið vilji til að ræða í nefndinni að þessu sinni. Auðvitað er það í samhengi við peningamálastefnuna, en í þessu frumvarpi er í raun ekki verið að fjalla um peningamálastefnuna sem slíka heldur er fjallað um hverjir taka ákvarðanir um hana og hvernig þeim stjórntækjum sem þar eru fyrir hendi er beitt. Upphafsorð hv. þingmanns voru kannski ekki alveg í samhengi við efnið sem um ræðir.

Hv. framsögumaður meiri hlutans nefndi einnig að við ættum að horfa á það hvað grannar okkar væru að gera í þessum efnum. Ekki er hægt að sjá að samræmi sé í því sem verið er að gera hér, hvorki í frumvarpinu né í tillögum meiri hluta nefndarinnar, við það sem gerist í nágrannalöndunum og jafnvel hægt að segja að þvert á móti sé verið að gera hluti sem eru í andstöðu við það sem gert er annars staðar. Peningastefnunefndir eru t.d. skipaðar á ýmsa vegu og samkvæmt frumvarpinu eða tillögum meiri hlutans er ekkert samræmi í því hvernig nefndin verður skipuð hér, miðað við einhverjar almennar reglur annars staðar. Ekki er heldur hægt að segja að í nágrannalöndum okkar sé almenn stefna um peningastefnunefndir eða að þeim sé almennt beitt, þá með utanaðkomandi aðilum í nefndinni.

Þegar fjallað er um hæfniskröfur fyrir seðlabankastjóra má segja að þær kröfur sem gerðar eru í frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans séu beinlínis í andstöðu við það sem er í nágrannalöndunum. Við höfum hvergi fundið tilfelli eða dæmi þess að gerðar séu hæfnis- eða menntunakröfur á þann hátt sem lagt er til í frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans þannig að beinlínis má segja að rangt er að farið sé eftir því sem grannar okkar eru að gera í þeim efnum.

Í frumvarpinu er í meginatriðum um fjórar efnislegar breytingar að ræða. Í fyrsta lagi breytingar á hlutverki bankaráðsins samkvæmt 1. gr. frumvarpsins, þar sem bankaráðinu er fært nýtt verkefni sem það hafði ekki áður. Í öðru lagi eru það hæfniskröfur sem gerðar eru til seðlabankastjórans, í þriðja lagi er lögð til fækkun í yfirstjórn bankans og í fjórða lagi er verið að leggja til að tekin sé upp sérstök peningastefnunefnd sem sé ekki bara skipuð starfsmönnum bankans. Það má segja að peningastefnunefnd hafi verið starfandi í Seðlabankanum og hægt að líta á hana annars vegar sem sjö manna nefnd og hins vegar þriggja manna en í raun höfðu bankastjórarnir þrír atkvæðisrétt og með þeim í stærri nefnd voru fjórir starfsmenn bankans, sem höfðu hvorki ákvörðunarvald né atkvæðisrétt.

Eins og ég nefndi áðan er ekki fjallað um fjármálastöðugleikahluta starfsemi Seðlabankans sem maður hefði talið að væri eðlilegt að gera á tímum sem þessum og eðlilegra og kannski nauðsynlegra og meira knýjandi en að leggja mikla vinnu í peningastefnuhlutann, þar sem færa má rök fyrir því — og það gerðu þó nokkrir af þeim umsagnaraðilum og gestum sem komu á fund nefndarinnar — að í nánustu framtíð yrði meiri áhersla lögð á og stærri hluti af tíma og starfi Seðlabankans færi í fjármálastöðugleikastarfið. Þá er sérstaklega um að ræða samskipti og samstarf við Fjármálaeftirlitið. En þá er ósvarað þeirri spurningu hvort skynsamlegt væri að sameina Fjármálaeftirlitið Seðlabankanum. Að mínu mati benda rök frekar til þess en að þær stofnanir eigi áfram að vera aðskildar. Ég hefði að mörgu leyti talið að það sem við höfum gengið í gegnum hefði verið einfaldara ef þetta hefði verið á einni hendi, þó að auðvitað séu rök fyrir því að hafa þetta áfram eins og það hefur verið. Ég held að við komumst ekki hjá því fyrr eða síðar að fara yfir hvernig þessi samskipti og samstarf eigi að vera og hvort rétt væri að sameina eða færa einhvern hluta frá Fjármálaeftirlitinu yfir til Seðlabankans. Í öllu falli teldi ég skynsamlegt að Seðlabankinn fengi frekari möguleika og færi á því skoða stöðu bankanna sjálfur og sjálfstætt án atbeina eða milligöngu Fjármálaeftirlitsins þegar Seðlabankinn leggur mat á stöðugleika fjármálakerfisins.

Síðan vantar, eins og ég nefndi áðan, umfjöllun um peningastefnuna sjálfa, hvaða viðmið á að nota og hvaða markmið á að setja. Það hefur auðvitað áhrif á hvernig ákvarðanir um stýrivexti eru teknar og hvaða ákvarðanir eru teknar. Þessi þáttur hefur áhrif hvort sem um er að ræða peningastefnunefnd eins og frumvarpið eða tillögur meiri hlutans gera ráð fyrir eða peningastefnunefnd eins og hún hefur verið samsett í Seðlabankanum á undanförnum árum. Það er út af fyrir sig sjálfstætt mál.

Ef við komum aftur að þessum fjórum efnislegu breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu og lítum á hvernig þeim vegnar í höndum meiri hluta nefndarinnar, þá er skemmst frá því að segja að þeirri útvíkkun á hlutverki bankaráðsins sem gert var ráð fyrir í 1. gr. frumvarpsins er einfaldlega hafnað af hálfu meiri hlutans og lagt til að fallið verði frá því að fara þá leið og þess vegna er þetta verkefni og þetta vald aftur falið seðlabankastjóranum. Sennilegast er skynsamlegt að gera það. Í öllu falli er það í samhengi við annað sem verið er að gera í frumvarpinu. Ekki er verið að gera stórkostlegar breytingar á Seðlabankanum og lítið verið að blanda bankaráðinu inn í þá hluti sem í frumvarpinu eru.

Í öðru lagi eru það hæfniskröfurnar. Talsvert miklar breytingar eru gerðar á þeim. Nú leggur meiri hlutinn til að seðlabankastjórinn skuli hafa lokið háskólaprófi í hagfræði. Ekki er lengur gert ráð fyrir að hann þurfi að hafa lokið meistaraprófi í hagfræði eða tengdum greinum og það er síðan skilgreint nánar í nefndarálitinu á frekar óljósan hátt þar sem taldar eru upp ýmsar greinar og síðan bætt við: „og fleira“. Ég held að þetta verði til þess að um það verði deilt í framtíðinni ef einhver verður ráðinn seðlabankastjóri sem ekki er hagfræðingur eða ekki með menntun sem kemur fram í upptalningunni hvort hann sé hæfur eða ekki til starfans. Það held ég að sé augljóst að muni valda deilum.

Þessar kröfur eru eins og ég sagði áðan í ósamræmi við það sem gerð er krafa um annars staðar í heiminum og við höfum ekki fundið dæmi um að svona kröfur séu gerðar annars staðar. Þetta er líka í ósamræmi við það hvernig við höfum staðið að málum á hv. Alþingi á undanförnum árum þegar við höfum sett hæfniskröfur fyrir aðrar stofnanir. Við skulum hafa það í huga að seðlabankastjórinn er embættismaður sem lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna munu eiga við samkvæmt því sem frumvarpið og breytingartillögurnar gera ráð fyrir. Í nýjustu dæmum um stofnanir, eins og Sjúkratryggingastofnun og Varnarmálastofnun er einungis gert ráð fyrir að forstjórar hafi háskólamenntun og síðan reynslu á því sviði sem um ræðir, eins og reyndar er gert ráð fyrir bæði í frumvarpinu og tillögum meiri hluta nefndarinnar. En ekki er gert ráð fyrir eða gerð krafa um að viðkomandi forstjóri eða forstöðumaður hafi einhverja tiltekna háskólamenntun. Kannski þá sérstaklega í ljósi þess að meiri hlutinn hefur líka lagt til að sérstök nefnd verði sett upp til að meta hæfni þeirra sem sækja um seðlabankastjórastöðuna og reyndar aðstoðarseðlabankastjórastöðuna, ætti að vera óhætt, ef hægt er að orða það þannig, að hafa þetta í samræmi við það sem gerist annars staðar, bæði innan lands og utan og ekki þyrfti að gera kröfu um hagfræði eða eitthvað sem tengist hagfræði. Það er einfaldlega betra og skýrara og mundi ekki í framtíðinni leiða til augljósra deilna, eins og ég nefndi áðan að gætu komið upp. Í öllu falli hafa miklar breytingar verið gerðar á þessari grein frá því sem var í frumvarpi ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra, sem lagt var fram fyrir um það bil tveimur vikum síðan.

Þriðja meginefnisatriðið í frumvarpinu var um fækkun í yfirstjórninni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að seðlabankastjórar fari úr því að vera þrír, einn aðalbankastjóri eða formaður bankastjórnar og tveir seðlabankastjórar, í það að vera einn seðlabankastjóri. Nú er það komið í að vera einn seðlabankastjóri og einn aðstoðarbankastjóri eða aðstoðarseðlabankastjóri, eða hvernig sem menn vilja orða það. Þá fer kannski lítið fyrir fækkuninni, einn maður, og titlabreytingar. Ef við horfum á þetta í samhengi peningastefnunefndarinnar þar sem verið er að bæta við utanaðkomandi mönnum væri hægt að draga þá ályktun, herra forseti, að um væri að ræða fjölgun í yfirstjórninni en ekki fækkun og þá frekar dreifingu á ábyrgð heldur en verið væri að auka ábyrgð þessa eina seðlabankastjóra. Einhver innri togstreita virðist vera í þessu hjá ríkisstjórninni og ríkisstjórnarmeirihlutanum ef svo má að orði komast þar sem meiri hluti nefndarinnar sem leggur fram þessar tillögur er annars vegar samþykktur af ríkisstjórnarflokkunum en hins vegar af Framsóknarflokknum, sem einungis hefur lofað því að verja stjórnina vantrausti.

Fjórða efnisatriðið er síðan peningastefnunefndin sem verið var að leggja til og í tillögu ríkisstjórnarinnar var um það að ræða að hún væri einungis skipuð innan húss og öll skipuð af seðlabankastjóranum en nú er forsætisráðherranum ætlað að skipa tvo nefndarmenn. Þegar við horfum síðan á það í ljósi þess að seðlabankastjórinn og aðstoðarseðlabankastjórinn eiga báðir að vera skipaðir af forsætisráðherra held ég að við höfum fært verulega mikið vald frá Seðlabankanum til forsætisráðuneytisins og rýrt verulega sjálfstæði bankans. Við höfum fært þyngdarpunktinn verulega frá Seðlabankanum og til forsætisráðuneytisins og þá sérstaklega í upphafi, ef frumvarpið verður að lögum með þessum breytingum, því þá á sitjandi forsætisráðherra, væntanlega núverandi hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, að skipa seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra og tvo aðila í peningastefnunefndina í einu. Ég efast um að forsætisráðherra hafi nokkurn tíma haft svo mikið vald yfir Seðlabankanum eins og hér um ræðir og færa mætti rök fyrir því að sá seðlabanki sem við stæðum uppi með að loknum þessum skipunum væri seðlabanki Jóhönnu Sigurðardóttur.