136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum nú við 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir á dögunum. Í þeirri umræðu kom það mjög skýrt fram í málflutningi okkar framsóknarmanna að við teldum að huga þyrfti að ýmsum þáttum þess frumvarps sem ríkisstjórnin lagði fram. Við gerðum helst athugasemdir við skipan í peningastefnunefnd sem kveðið er á um í frumvarpinu og þær kröfur sem gera ætti til umsækjenda um starf seðlabankastjóra. Við bentum einnig á að við lögðum fram frumvarp á vettvangi þingsins, fyrstir flokka á þessu þingi, um breytingar á lögum um Seðlabankann þar sem við vildum ná fram því markmiði að gera þær ákvarðanir sem seðlabankastjórn tekur um stýrivexti gegnsærri. Miklu máli skiptir að gegnsæið sé algert í þeim efnum og í miklu nefndarstarfi á vettvangi viðskiptanefndar hefur verið tekið tillit til þeirra sjónarmiða. Reyndar var því þannig varið að flestir þeir gestir og umsagnaraðilar sem komu á fund nefndarinnar mæltu fyrir því að í slíkar breytingar yrði ráðist.

Hæstv. forseti. Búið er að fara ágætlega yfir þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar leggur til hér við 2. umr. og eins og fram hefur komið höfum við farið mjög ítarlega yfir þetta mál. Við leggjum til miklar breytingar á frumvarpinu enda er það allt gert að vel íhuguðu máli. Þegar lögum um grundvallarstofnun eins og Seðlabanka Íslands er breytt er mikilvægt að menn kasti ekki til höndum og vandi sig verulega, og það hefur verið gert.

Ég ætla, hæstv. forseti, að fara í örfáum orðum yfir þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar leggur til. Það er í fyrsta lagi varðandi 1. gr. frumvarpsins. Þar kom fram sá skýri vilji hjá okkur í meiri hlutanum að við töldum mjög varhugavert að blanda bankaráði Seðlabankans inn í þær breytingar sem við erum að gera á stjórn bankans. Við vildum einskorða okkur við þá meginþætti sem mælt var um í frumvarpinu, þ.e. um stofnun peningastefnunefndar og breytingar sem gerðar eru er varða bankastjóra bankans. Við lögðum til breytingar á 1. gr. þar sem við tókum bankaráðið út úr því hlutverki sem því var falið sem varðaði varðveislu gjaldeyrisvarasjóðsins þannig að við því verður ekki hróflað. Eðli bankaráðsins verður því hið sama fyrir og eftir þessa lagabreytingu sem snýr að öðrum þáttum.

Varðandi skipan seðlabankastjóra og fækkun þeirra úr þremur í einn, sem hæstv. forsætisráðherra gerði ráð fyrir, þá höfum við gert þær breytingar að forsætisráðherra muni skipa seðlabankastjóra en jafnframt aðstoðarseðlabankastjóra til fimm ára í senn. Í frumvarpinu, eins og það var lagt fram, var gert ráð fyrir að skipunartíminn yrði sjö ár en nefndin hefur breytt því í fimm ár jafnframt því að ráðinn verði sérstakur aðstoðarseðlabankastjóri.

Við framsóknarmenn höfum talið það mjög mikilvægt að í þessu ákvörðunartökuferli, þegar kemur að því að skipa seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra, sé það hafið yfir allan vafa hver einstaklinganna sé hæfastur. Meiri hluti nefndarinnar leggur það því til að sérstök hæfnisnefnd verði skipuð sem muni leggja mat á umsækjendur og mæla með ákveðnum aðilum eða leggja mat á hæfi þeirra, en forsætisráðherra taki svo endanlega ákvörðun. Þetta er í takt við tíðarandann. Við þurfum að standa faglega að ráðningum í opinber embætti og töldum við því brýnt að þessi nefnd kæmi að slíku ferli og mun hún þar af leiðandi segja álit sitt á þeim umsækjendum sem munu sækja um þessi störf verði frumvarpið að lögum.

Við gagnrýndum jafnframt, og vildum breytingar á því, hvernig peningastefnunefndin, sem gegnir mjög mikilvægu hlutverki á því sviði að móta peningastefnuna — og veitir ekki af því að sú nefnd sé þannig mönnuð að hún njóti mikillar viðurkenningar. Við þurfum að vanda vel valið á þeim sem skipa þá nefnd. Samkvæmt þeim breytingartillögum sem við höfum lagt fram munu seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri vera í nefndinni ásamt einum öðrum aðila innan úr bankanum. Eins og frumvarpið var þegar það var lagt fram var gert ráð fyrir að seðlabankastjórinn skipaði alla þá nefnd. Við töldum það varhugavert og vildum að fleiri aðilar kæmu að því að skipa nefndina og nú hefur verið lagt til að forsætisráðherra skipi tvo aðila í peningastefnunefndina. Mér finnst rétt að það komi fram í þessari umræðu að ég tel eðlilegt að þeir aðilar sem kæmu þangað inn fyrir hönd forsætisráðherra kæmu jafnvel frá útlöndum, t.d. virtir sérfræðingar sem hefðu jafnvel reynslu af krísum sem aðrar þjóðir hafa lent í hliðstæðum þeirri sem við stöndum nú frammi fyrir.

Þó að þeir erfiðleikar sem við stöndum frammi fyrir séu margfalt verri en margar aðrar þjóðir hafa lent í finnst mér mikilvægt upp á trúverðugleika nefndarinnar að við fáum erlenda aðila í þessa nefnd, nefnd sem mun hittast að minnsta kosti átta sinnum á ári til að móta stefnu í peningamálum. Svo að það hafi verið sagt hér í þessari umræðu þá finnst okkur framsóknarmönnum mikilvægt að í þessari peningastefnunefnd komi fólk víða að, fólk með víðtæka þekkingu og reynslu, kannski ólíka þekkingu og ólíka reynslu, til þess að víddin í nefndinni sé með þeim hætti að hún verði okkur öllum til gagns.

Hæstv. forseti. Síðasta haust lögðum við framsóknarmenn fram hér á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Það frumvarp laut m.a. að því að stuðla að því að auka gagnsæi við stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans og gerði það frumvarp ráð fyrir því að bankastjórnin birti fundargerðir sínar eins og tíðkast í mörgum öðrum löndum. Við ræddum þetta mikið á vettvangi nefndarinnar, við þingmenn sem sitjum í nefndinni, og ræddum við þá aðila sem veittu umsagnir um frumvarpið og komu á fund nefndarinnar. Voru flestir sammála því að það væri eðlilegt og mundi auka trúverðugleikann ef peningastefnunefndin, sem mun taka yfir þetta hlutverk verði frumvarpið að lögum, birti fundargerðir sínar. Í þessum breytingartillögum meiri hlutans er því lagt til að gagnsæið verði aukið á þann veg að fundargerðir peningastefnunefndar verði birtar.

Í annan stað ræddum við mikið um hlutverk Alþingis þegar kemur að stjórn efnahagsmála. Hér er fjárveitingarvaldið og það er mikilvægt að Alþingi auki stöðu sína og vigt, sérstaklega á þeim tímum sem við horfumst nú í augu við. Við leggjum því til þá breytingu að peningastefnunefnd gefi Alþingi skýrslu tvisvar á ári og þá þeim nefndum sem málið varðar, þ.e. fjárlaganefnd, viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd — að peningastefnunefnd gefi Alþingi tvisvar á ári skýrslu um málefni nefndarinnar, um stöðu gjaldmiðilsins og fleiri þætti.

Við höfum hugsað þetta þannig að lokaðir fundir yrðu með nefndunum þremur og fulltrúum úr peningastefnunefnd og að jafnvel yrðu fengnir fleiri sérfræðingar, jafnt innlendir sem erlendir, til að fara yfir stöðu efnahagsmála því að peningastefnunefnd mun náttúrlega gegna lykilhlutverki á því sviði. Við höfum rætt það hér á vettvangi þingsins að Alþingi sé oft og tíðum afskipt þegar kemur að þessum málum því að framkvæmdarvaldið hefur á undangengnum árum leikið lykilhlutverk. Ef við þingmenn viljum auka vægi þingsins og vigt í þessu málum tel ég það af hinu góða að við komum þessu ferli á, þ.e. að þingnefndir hitti peningastefnunefnd og fari yfir stöðu efnahagsmála tvisvar á ári.

Í frumvarpinu sem hæstv. forsætisráðherra lagði hér fram á vettvangi þingsins var ekki getið um hæfisskilyrði nefndarmanna í peningastefnunefnd. Það segir sig sjálft að þegar um slíka nefnd er að ræða, sem getur tekið mjög stórar og afdrifaríkar ákvarðanir, til að mynda á gjaldeyrismarkaði, þarf hæfi nefndarmanna að vera skýrt. Það segir sig sjálft að einstaklingur sem er umsvifamikill í viðskiptum á gjaldeyrismarkaði getur ekki setið í peningastefnunefnd. Það segir sig líka sjálft að bankastjórinn eða aðstoðarseðlabankastjórinn munu heldur ekki getað verið í slíku samhliða störfum sínum. Það er mjög mikilvægt að hnykkja á því í áliti okkar og tillögum hér við 2. umr. að hæfisskilyrðin fari ekki á milli mála. Við kveðum jafnframt á um ákvæði um þagnarskyldu þessara nefndarmanna og bankastjóranna þannig að því verði þannig háttað, eins og með aðra starfsmenn í bankakerfinu, að mönnum beri að gæta fyllsta trúnaðar í störfum á vettvangi bankans.

Hæstv. forseti. Þetta mál er hluti af stærra samhengi, hluti af því að við höfum horft upp á mesta efnahagshrun í lýðveldissögunni hér á landi. Víðtækar kröfur hafa verið í samfélaginu um breytingar og við framsóknarmenn teljum að við höfum stuðlað að ákveðnum breytingum, fyrst með því að bjóðast til að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með hlutleysi ef vantrauststillaga kæmi hér fram á vettvangi Alþingis. Við þá breytingu, eftir að sú ríkisstjórn tók til starfa, urðu ákveðnar breytingar á ríkisstjórn sem viðamikil krafa var um. Búið er að skipta um yfirstjórn í Fjármálaeftirlitinu, þar hafa ákveðnar breytingar átt sér stað. Með þessari löggjöf, verði hún að lögum, erum við að breyta umgjörð Seðlabanka Íslands.

Ekki er þar með sagt að við höfum lokið því að koma til móts við þær óskir sem uppi eru í samfélaginu um breytingar og við höfum verið að ræða hér mörg mál í þeim efnum, m.a. um stjórnlagaþing þar sem almenningur kæmi að því að endursemja stjórnarskrá lýðveldisins. Það er margt sem við þurfum að huga að á næstunni þannig að þetta mál er hluti af mjög stórri heildarmynd. Við skulum hafa í huga að með breytingum á lögum um Seðlabankann — ef við hefðum viljað gera enn fleiri breytingar tel ég að við hefðum þurft að taka í það meiri tíma.

Í ljósi aðstæðna í samfélaginu er nauðsynlegt að við hefjum heildarendurskoðun á öllu regluverki utan um íslenskt fjármálalíf. Ég tel að allir stjórnmálaflokkar þurfi að koma að því ásamt færustu sérfræðingum. Sú endurskoðun þarf að fara af stað, hvernig við ætlum að endurreisa íslenskt fjármálakerfi og íslenskt efnahagslíf. Vanda þarf til verka og því væri ekki úr vegi, hæstv. forseti, að við færum að hefja þá vinnu. Við þingmenn ættum að sýna frumkvæði í því að hefja slíka heildarendurskoðun sem mun taka langan tíma, að mörgu er að hyggja því að við erum hluti af innri markaði Evrópu í þessu samhengi.

Ég tel að við hér á vettvangi þingsins ættum að einhenda okkur í þá vinnu að endurskoða í heild sinni allt regluverk um íslenskt fjármálakerfi og sérstaklega hvernig við viljum sjá framtíðina í þeim efnum. Ég hef nefnt það úr ræðustóli þingsins að ég vilji sérstaklega horfa til sparisjóðanna í þeim efnum, hvernig við ætlum að endurreisa fjármálakerfið. Ég held að þær hugsjónir og þau gildi sem sparisjóðirnir hafa verið reistir á síðustu áratugina séu í takt við þann anda sem er í þjóðfélaginu í dag. Ríkar kröfur eru gerðar um samfélagslegar skyldur þeirra stofnana ólíkt því sem var hjá stóru viðskiptabönkunum þremur á árunum 2006 og 2007 þar sem mér fannst að mörg samfélagsleg viðhorf væru látin víkja til hliðar.

Að mörgu er að hyggja, hæstv. forseti. Það er rétt að við erum með aukadag hér á þingi til þess að fjalla um þetta mál. Ég hef trú á því að á næstu vikum, á síðustu dögum þingsins, munum við þurfa að funda mikið. Við þurfum að komast í gegnum öll þau mál sem liggja fyrir þinginu. Mikið álag er á nefndir þingsins um þessar mundir. Við skulum búa okkur undir að funda hér einhver kvöld því að þjóðarhagur liggur við. Við framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á að klára fyrir kosningar þau góðu mál sem fyrir liggja, þau mál sem koma til móts við bráðavanda heimila og fyrirtækja. Með þessum breytingum teljum við að við séum að auka á trúverðugleika íslenskrar efnahagsstjórnunar. Það er markmiðið með frumvarpinu.

Ég vil að lokum þakka formanni nefndarinnar og hv. nefndarmönnum á vettvangi viðskiptanefndar Alþingis fyrir gott samstarf. Það hefur verið vandasamt að fara yfir þetta mál og við erum að fjalla um mjög viðkvæm mál en ég tel að við höfum náð mjög góðu samkomulagi á vettvangi nefndarinnar um hvernig við munum ljúka þessu starfi. Þó að sitt sýnist hverjum um efnisinnihald þeirra breytingartillagna sem hér liggja fyrir held ég að við getum þó verið sammála um að viðskiptanefnd hefur gert fjölmargar breytingar á frumvarpinu, breytingar sem eru til góðs og munu vonandi skila sér í öflugum Seðlabanka Íslands til lengri tíma litið og í auknu trausti á íslensku efnahags- og fjármálalífi. Með hagsmuni þjóðarinnar og fyrirtækjanna í landinu í huga verðum við að endurreisa það traust jafnt innan lands sem erlendis. Það hlýtur að vera stefna okkar allra sem sitjum á Alþingi Íslendinga.