136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:49]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um Seðlabanka Íslands. Ég hef hlýtt á þessa umræðu í allan morgun og það kemur berlega í ljós hjá þeim þingmönnum sem hér hafa tjáð sig að eitt af mikilvægari málum í þessari lagasmíð er að breyta yfirstjórn Seðlabankans og skipta um þá bankastjóra sem þar hafa verið við völd. Gott og vel með það. Núverandi ríkisstjórn hefur meiri hluta til að gera þessa hluti.

Það kemur hins vegar fram í ræðu hv. þingmanns að hann leggur mikið upp úr trúverðugleika landsins varðandi peningamál og peningamálastefnu, varðandi fjármál. Hann talar jafnframt um að við þurfum að skoða heildarregluverkið, eins og hv. þingmaður orðaði það. Nú langar mig að spyrja hann og fara aðeins frá því frumvarpi sem við erum að ræða: Hvernig telur hv. þingmaður að trúverðugleiki Íslands sé gagnvart orkunýtingu, orkuuppbyggingu og nýtingu á þeim auðlindum til að þessi þjóð geti aflað sér gjaldeyris í framtíðinni? Mig langar að spyrja hv. þingmann að því vegna þess að framsóknarmenn hafa lagt mikið upp úr því að hér mætti auka störf og afla tekna fyrir þetta samfélag: Hefur þingmaðurinn áhyggjur af því að núverandi minnihlutastjórn sem Framsóknarflokkurinn styður hafi þann trúverðugleika að við náum til landsins erlendum fjárfestum sem vilja hér fjárfesta og vera eins og var á þeim tímum þegar uppbygging var hvað mest á þessu sviði?