136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:55]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði að það er búið að setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd á vegum þingsins. Ég hef hins vegar ekki trú á því að sú nefnd muni taka til allra þátta efnahagsmála eins og ég rakti í ræðu minni áðan. Ég tel brýnt að við förum ekki að fresta þeim verkefnum sem við okkur blasa og ég tel að við þurfum að skoða hvort eitthvað standi út af borðinu í þeim efnum við það að skoða hvernig við ætlum að haga þessum málum okkar til framtíðar.

En af því að hv. þingmaður virðist gefa sér það hér að núverandi ríkisstjórnarflokkar, sem eru minnihlutastjórn, ætli sér ekkert í atvinnumálum þá ætla ég ekki að trúa slíku upp á þá ríkisstjórn sem starfar á Alþingi. Við framsóknarmenn höfum sagt hér á þingi að við munum styðja öll góð mál sem frá þessari minnihlutastjórn kemur. Við munum líka styðja öll þau góðu mál sem koma frá öðrum stjórnarandstöðuflokkum og við munum sjálf leggja fram góð mál hér með það að markmiði að bæta samfélagið sem við búum í og ég held að það veiti ekkert af því. Við þingmenn á Alþingi þurfum því að standa saman til þess að koma mikilvægum málum í gegnum þingið. Af því að hv. þingmaður kemur upp og gagnrýnir þá minnihlutastjórn sem hér er að störfum — og hún er svo sannarlega ekki yfir gagnrýni hafin — þá vil ég minna hv. þingmann á að síðasta ríkisstjórn var svo máttlaus, svo vonlaus að hana greindi á í öllum grundvallaratriðum. Við kölluðum eftir raunverulegu aðgerðum síðustu ríkisstjórnar. Það var allt of lítið um verk á þeim bæ. Þess vegna varð að leysa Sjálfstæðisflokkinn úr ríkisstjórninni. Ég held að hann muni gegna lykilhlutverki í stjórnarandstöðu. Það er mikilvægt hlutverk. En ég hvet hv. þingmann og ég hvet Sjálfstæðisflokkinn til þess að standa með öðrum þingflokkum á vettvangi þingsins og þeirri (Forseti hringir.) minnihlutastjórn sem hér starfar til að koma góðum málum áfram. Það er vilji okkar framsóknarmanna.