136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:18]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Magnússon er greinilega kominn í Sjálfstæðisflokkinn með fálkann í barmi sér og talar um að hv. þm. Geir H. Haarde hafi talað um endurskoðun á peningamálastefnunni. Flott mál ef þeir hefðu gert eitthvað. En samt kom fram í ræðu hv. þingmanns að hann er ekki búinn að slíta naflastrenginn við Frjálslynda flokkinn enn þá og það er gleðiefni þannig að hann kemur kannski heim aftur. En þetta er nú svona aukainnskot.

Ég fagna þessu frumvarpi. Þetta er mál sem brennur á þjóðinni að það sé tekið á yfirstjórn Seðlabankans og komið á nýrri stefnumörkun í peningamálum. Ég tek undir það sem hefur komið fram að það þarf að aflétta bankaleynd og það er mjög mikilvægt að það sé einnig gegnsæi í peningamálastefnunni. Það þarf að byggja upp traust gagnvart almenningi og alþjóðasamfélaginu. Það gerist ekki nema með breyttri stefnu. Atvinnulífið og heimili þessa lands þurfa þess með og það strax.

Vandinn sem skapaðist við bankahrunið var ekki bara alþjóðlegur vandi eins og menn reyna að túlka það heldur ekki síður heimatilbúinn vandi og það má engum blandast hugur um það að Seðlabankinn brást. Fyrri ríkisstjórn brást algjörlega vegna ákvörðunarfælni.

Sjálfstæðismenn tala um að það þurfi að vera þrír bankastjórar áfram í Seðlabankanum. Ég vil minna menn á að það kann aldrei góðri lukku að stýra að þrír skipstjórar séu á sama skipi. Það getur einfaldlega ekki gengið upp. Það yrði uppreisn innan skamms. En aðstoðarbankastjórinn sem yrði þarna til eða staðgengill seðlabankastjóra, við getum kallað hann stýrimann á skútunni og stýrimaðurinn er kallaður til að taka við skipi í stórsjó eða við brimboða eða hverju sem er ef skipstjóri forfallast. Þess vegna er mjög mikilvægt að það sé bara einn skipstjóri á skútunni, einn bankastjóri.

En ég spyr: Hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn krafist þess að seðlabankastjórarnir og stjórn Seðlabankans víki? Þetta er spurning sem brennur á þjóðinni og þarfnast svara í stöðunni í dag.

Þá tel ég mjög mikilvægt að þetta mál gangi í gegn eins fljótt og hægt er til þess að þjóðin geti farið að njóta trausts alþjóðasamfélagsins aftur og hægt verði byggja upp samfélagið á ný.

Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur formanni viðskiptanefndar mjög mikið fyrir að hafa komið til okkar í þingflokki Frjálslynda flokksins og svarað okkar spurningum skilmerkilega og skýrt fyrir okkur stöðuna. Þess vegna er það mitt mat eftir þær viðræður að ég stuðla að því að þetta frumvarp nái fram að ganga.