136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Segja má að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan við ræddum upphaflegt frumvarp ríkisstjórnarinnar, frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands vegna þess að nú liggja fyrir breytingartillögur frá meiri hluta hv. viðskiptanefndar sem eru í átta liðum. Ætli ég megi ekki leyfa mér að segja að frumvarpið hafi tekið slíkum breytingum í meðförum nefndarinnar að það hafi nánast verið endurskrifað. Það eru alla vega mjög miklar breytingar á því frumvarpi sem lagt var upp með í upphafi.

Ég gagnrýndi það á sínum tíma þegar mælt var fyrir þessu frumvarpi að ríkisstjórnin sem lagt hefur mikla áherslu á gagnsæi og fagleg vinnubrögð hér í þinginu eftir að hún tók við völdum skyldi hafa neitað okkur þingmönnum, sem ætlað er að fjalla um lagafrumvörp hér og viljum nú reyna að gera það eftir bestu getu og samviskusemi, um upplýsingar um það hvernig staðið var að samningu þessa frumvarps. Hæstv. forsætisráðherra upplýsti þingið um það á þeim tíma að ráðuneytið hefði leitað til sérfræðinga við samningu frumvarpsins og að fyrirmyndir hefðu verið hafðar til hliðsjónar við samningu þess.

Þegar eftir því var leitað að fá upplýsingar um það hverjir þessir sérfræðingar væru og hvaða fyrirmyndir höfðu legið að baki kom stjórnarandstaðan sem lagði þessa frómu ósk fram að luktum dyrum vegna þess að hæstv. forsætisráðherra neitaði að upplýsa þingið um það hverjir þessir sérfræðingar væru og hvaða fyrirmyndir lægju til grundvallar.

Ég átti þess kost að sitja nokkra fundi í viðskiptanefnd þar sem fjallað var um málið og ítrekaði þessar spurningar mínar við fulltrúa forsætisráðuneytisins og óskaði eftir upplýsingum um þetta enda er það nauðsynlegt fyrir okkur þingmenn sem eigum að fjalla um þessi mál að við getum kallað til skrafs og ráðagerða þá sérfræðinga sem koma að samningu frumvarpa til þess að fá upplýst um hvaða sjónarmið lágu að baki þeim ákvörðunum sem þeir tóku í sinni vinnu. En það var eins og við manninn mælt að upplýsingum um þessi sjálfsögðu atriði var neitað og ég hygg að það sé algjört einsdæmi á Alþingi að framkvæmdarvaldið sýni þinginu og þingmönnum svo mikla lítilsvirðingu að upplýsa ekki um það hverjir hafi komið að vinnslu mála. Það er afar mikilvægt við aðstæður eins og þær sem hér eru uppi þegar megnið af íslenska fjármálakerfinu er hrunið og til stendur að hefja endurreisn þess að ekki sé hulið einhverjum leyndarhjúpi hverjir stóðu að samningu mála.

Þegar grennslast er fyrir um það hvaða mál hafa verið flutt til breytinga á lögum um Seðlabankann þá kemst maður raunar fljótt að niðurstöðu um að fyrirmynd þess frumvarps sem við ræðum nú er þingmál sem meðal annars hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson, núverandi hæstv. utanríkisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi hæstv. forsætisráðherra og Margrét Frímannsdóttir,fyrrverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sem starfar ekki lengur á þingi, fluttu.

Með fullri virðingu fyrir þessu ágæta fólki þá hefði ég haldið að vildu menn efla traust á íslensku fjármálakerfi og þar á meðal íslenska Seðlabankanum þá hefði verið skynsamlegra að leita til færustu sérfræðinga til þess að móta þær lagareglur sem um bankann eiga að gilda í komandi framtíð.

Eins og ég lýsti hérna áðan varð sú auðvitað raunin að til sérfræðinga var leitað en því miður höfum við sem sæti eigum á þingi en styðjum ekki þá minnihlutastjórn sem hér er við völd ekki fengið upplýsingar og fengum ekki tækifæri til þess að ræða við þá sem að samningu frumvarpsins komu. Ég held að þeir sem fylgjast með þessum umræðum hljóti nú að sjá hvers konar vinnubrögð þetta eru. Þau samrýmast ekki þeim áherslum sem ýmsir hv. þingmenn eins og hv. þm. Atli Gíslason sem situr hér í salnum og hlustar á þessa ræðu hefur lagt mikla áherslu á í sínum störfum á þinginu. Hann hefur oft nefnt faglega verkferla við vinnslu mála og lagt mikla áherslu á gagnsæi og fagmennsku við vinnslu allra mála. Mér finnst ótrúlegt að hv. þingmenn eins og Atli Gíslason treysti sér til þess að verja þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í þessu máli, ekki síst í ljósi þeirra orða sem hann lét falla um vinnulag fyrri ríkisstjórnar meðan hann var stjórnarandstöðuþingmaður. Þetta er mjög miður og það er miður þegar við Íslendingar í þessari stöðu erum að gera tilraunir til þess að endurreisa bankakerfið og endurskipuleggja fyrirkomulag íslenska fjármálakerfisins að unnið sé með þessum hætti.

Þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir eru að mínu mati margar hverjar til nokkurra bóta. Ég taldi þegar frumvarpið kom fram að það væri háð gríðarlega miklum annmörkum. Ég var þeirrar skoðunar að þær menntunar- og hæfniskröfur sem fram komu varðandi seðlabankastjórann væru of þröngar. Ég tel að þær breytingar sem hér birtast okkur í breytingartillögum meiri hlutans séu til bóta. Engu að síður þá er það mín skoðun að það þurfi að taka það mál aftur upp til umræðu og umfjöllunar þegar málið fer til viðskiptanefndar milli 2. og 3. umr. Ég hygg að þær menntunarkröfur sem hér koma fram séu eftir atvikum of þröngar og við megum ekki hleypa í gegn hér máli sem er til þess fallið að útiloka tiltekna hópa frá því að geta sinnt starfi seðlabankastjóra.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé til bóta í málinu að mæla svo fyrir um að aðstoðarseðlabankastjóri skuli skipaður. Það hefði verið ófremdarástand í bankanum ef seðlabankastjóri hefði forfallast frá sínum störfum og enginn hefði verið til þess að leysa hann af við slíkar aðstæður.

Varðandi peningastefnunefndina var ég þeirrar skoðunar í upphafi að fyrirkomulag hennar og skipan væri miklum annmörkum háð. Ákvæðin, eins og þau birtust okkur í því frumvarpi sem lagt var fram hér á Alþingi — þar var gert ráð fyrir því að peningastefnunefnd starfaði í rauninni algjörlega undir hæl seðlabankastjórans en því hefur nú verið breytt á þann veg að forsætisráðherra Íslands skipi aðila í nefndina. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd hafa réttilega bent á að með þessum breytingum megi halda því fram að vaðið sé úr öskunni í eldinn, þ.e. að farið sé úr einum öfgunum yfir í aðrar. Verði þetta niðurstaðan má segja að vegið sé að sjálfstæði Seðlabanka Íslands og ákvarðanir um peningastefnu séu þá fyrst og fremst á höndum forsætisráðherra. Þetta er auðvitað atriði sem þarf að taka til nákvæmari skoðunar.

Ég hefði talið, og sagði það þegar ég sat fundi í viðskiptanefnd, að eðlilegt hefði verið við þessar aðstæður að fá erlenda fagaðila til að fjalla um þessi mál, annars vegar peningastefnunefndina, skipan hennar og hlutverk, og hins vegar þær hæfiskröfur sem gerðar eru til framtíðarseðlabankastjóra. Það lá fyrir að Seðlabanki Evrópu hafði lýst sig reiðubúinn til að veita umsögn, „legal opinion“, um það frumvarp sem við fjöllum um hér, en formaður nefndarinnar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, benti á það í umræðunni í nefndinni að ekki væri til siðs, og ekki væri hefð fyrir því, að leitað væri til erlendra aðila varðandi umsagnir um frumvörp sem þessi. Á þeim tíma lá þó fyrir umsögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í möppum þingmanna þannig að þegar af þeirri ástæðu hélt sú röksemd ekki og því var jafnframt haldið fram að ekki væri eðlilegt að leita til Seðlabanka Evrópu, eins seðlabanka í heiminum, varðandi umsögn um þessi atriði, það væri allt eins nær — og sú röksemd var borin á borð fyrir okkur þingmenn — að leita til Seðlabanka Bandaríkjanna og jafnvel til seðlabankans í Rússlandi eða seðlabankans í Kína.

Ég verð nú að segja fyrir mína parta að þetta eru röksemdir sem halda ekki af þeim ástæðum tveimur að Seðlabanki Evrópu var sjálfur að eigin frumkvæði reiðubúinn, og hafði lýst því yfir í tölvupósti til forsætisráðuneytisins, til að gefa álit sitt á frumvarpinu. Það verður líka að hafa í huga að frá upptöku og lögfestingu laganna um EES-samninginn hafa gilt hér á Íslandi reglur á fjármálamarkaði sem eiga uppruna sinn innan Evrópusambandsins. Þetta eru reglur sem eru að mörgu leyti samræmdar á Evrópska efnahagssvæðinu og gilda hér líkt og í Evrópu. Það er af þeirri ástæðu sem eðlilegt hefði verið, og eðlilegra hefði verið, að leita umsagnar hjá Seðlabanka Evrópu frekar en hjá seðlabanka í fjarlægum álfum.

Því miður var það svo að það var ekki gert og því haldið fram að óeðlilegt væri að leita umsagnar hjá erlendum stofnunum þrátt fyrir að fyrir framan nefndarmenn lægi umsögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem er auðvitað einnig alþjóðleg stofnun þannig að þær röksemdir héldu ekki og allur málatilbúnaðurinn að þessu leyti var fyrirsláttur.

Það er eins og áður þannig að þó svo að núverandi ríkisstjórnarflokkar leggi hér til breytingar á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands munu þær einar og sér ekki leiða til neinna úrlausna á þeim vanda sem við Íslendingar eigum við að etja. Það er ekki úrslitaatriði um afkomu þessarar þjóðar og endurreisn íslenska fjármálakerfisins hvort bankastjórar í Seðlabankanum séu einn eða þrír — og ég er svo sem ekkert að lýsa mig andsnúinn því — eða hvort bankaráð Seðlabankans sé skipað með þessum hættinum eða öðrum eða hvort í bankanum starfi peningastefnunefnd. Stjórnskipulag bankans mun ekki leysa okkar vanda.

Það sem vantar auðvitað í frumvarpið er það lykilatriði að fjallað sé um framtíðarpeningamálastefnu á Íslandi, það er lykilspurningin sem við þurfum að spyrja. Ég hef tekið eftir því að í ræðum hafa hv. þingmenn Samfylkingarinnar lýst því yfir hér á síðustu dögum að mikilvægasta verkefnið í íslenskum stjórnmálum sé að marka framtíðarstefnu í peninga- og gjaldmiðilsmálum á Íslandi. Þetta frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem ríkisstjórnin telur að sé svo mikilvægt við þær aðstæður sem uppi eru tekur ekki á þessum meginatriðum, atriðum sem þingmenn sem styðja við bakið á ríkisstjórninni hafa sjálfir lýst við annað tækifæri og annað tilefni að séu meginverkefnin við þær aðstæður sem hér eru uppi. Það er ekkert í þessu frumvarpi eða breytingartillögum eða öðru því sem komið hefur frá ríkisstjórninni, hvort sem er frá hæstv. ráðherrum eða hv. þingmönnum, sem varpar einhverju ljósi á framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar í peninga- og gjaldmiðilsmálum. Þetta eru auðvitað þau verkefni sem menn ættu að vera að vinna, en því miður er það þannig að hvorki er hægt að sjá það af þessu frumvarpi né af verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar að slík verkefni séu þar á dagskrá.

Frú forseti. Það er vonandi þannig að við meðferð þessa máls, bæði hér í umræðunni á þingi og sömuleiðis í nefnd, fari málið til nefndar milli 2. og 3. umr., verði fjallað um þessi veigamiklu atriði. Það er misskilningur að ætla að kenna stjórnskipulagi Seðlabankans um það hvernig komið er. Við þurfum að einbeita okkur, númer eitt, tvö og þrjú, að þeim úrlausnum sem við viljum vinna að til framtíðar við skipan peningamála á Íslandi. Það gerir þetta frumvarp ekki og ég heiti á og skora á ríkisstjórnina og þá hv. þingmenn sem styðja hana að taka það mál til umfjöllunar. Fólkið í landinu og fyrirtækin í landinu þola ekki að um þessi atriði sé einhver óvissa. Það þarf framtíðarstefnu í þessum málaflokki.

Ég get lýst því yfir hér að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins erum og höfum alltaf verið reiðubúnir til að ræða það með hvaða hætti við eigum að haga peningamálastefnu okkar í framtíðinni. Ríkisstjórnin getur því treyst á það að Sjálfstæðisflokkurinn mun taka þátt í þeirri umræðu á málefnalegan og uppbyggilegan hátt en við óskum eftir því að stjórnarflokkarnir og Framsóknarflokkurinn komi að þeim viðræðum — og Frjálslyndi flokkurinn svo að ég gleymi honum nú ekki — með opnum huga þar sem engar leiðir eru útilokaðar. Ég tel að við þær aðstæður sem uppi eru höfum við einfaldlega ekki efni á því að slá neina möguleika út af borðinu en því miður hefur það verið þannig að ríkisstjórnin hefur ekki sýnt neina tilburði í þá átt að ræða þessi lykilatriði, þessi lykilmál sem brenna á fólkinu í landinu í dag. Það frumvarp sem við fjöllum um hér, um Seðlabanka Íslands, hefur ekkert með þessi atriði að gera en vonandi verður gerð á því bragarbót milli 2. og 3. umr. um þetta mál.