136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:47]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra að hv. þingmaður hefur ekki breytt skoðun sinni varðandi vinnubrögð í þinginu. Þeim vinnubrögðum sem hv. þingmaður hefur talað fyrir um gagnsæi og upplýsingagjöf var samt ekki fylgt í þessu máli. Ég fæ ekki séð að þeim reglum í handbókinni sem hv. þingmaður nefndi sem okkur er gert að fylgja hafi verið fylgt og þótt hann sé þeirrar skoðunar að þingið hafi sýnt styrk sinn með því að gera breytingar á nánast öllum ákvæðum frumvarpsins við meðferð þess í nefndinni má segja að ríkisstjórnin hafi ekki sýnt þinginu neina sérstaka virðingu. Þegar þingmenn óska eftir því að fá upplýsingar um það hverjir stóðu að samningu frumvarpsins er þeim haldið í algeru myrkri um það.

Auðvitað hefur verið rætt um peningamálastefnuna í röðum okkar sjálfstæðismanna, bæði milli okkar og hér í þingsalnum. Ég veit ekki betur en að hv. þm. Atli Gíslason og fleiri í hans röðum og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hafi gert það líka og einmitt gagnrýnt peningamálastefnu Seðlabankans frá 2001. Ég minnist innblásinna og mjög innihaldsríkra og góðra ræðna hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, vinar míns heitins, sem hélt hér ræður á hverju einasta ári um peningamálastefnu Seðlabankans. (Gripið fram í.) Auðvitað komu fram skilaboð frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um þessa peningamálastefnu. Hitt er annað mál að núna þegar hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar fá tækifæri til að setja mark sitt á peningamálastefnu Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar skila þeir auðu vegna þess að ekkert í þessu frumvarpi hefur með peningamálastefnu ríkisins að gera.

Ég vil síðan benda hv. þingmanni á að það verður ekki bæði sleppt (Forseti hringir.) og haldið í þessu. Það þýðir ekki að tala um sjálfstæði Seðlabankans í öðru orðinu en (Forseti hringir.) afskipti ríkisins í hinu.