136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir beindi til mín fyrirspurn sem varðar 12. gr. frumvarpsins sem er ákvæði I til bráðabirgða við frumvarpið og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 26. gr. laganna skal Alþingi eins fljótt og unnt er eftir gildistöku laga þessara kjósa bankaráð Seðlabanka Íslands ásamt varamönnum. Frá sama tíma fellur niður umboð þeirra er þá sitja í bankaráðinu.“

Ég vil, herra forseti, taka af allan vafa um það að núverandi bankaráð skal sitja þar til skipað hefur verið nýtt bankaráð. Það er skilningur frumvarpsins, það er skilningur viðskiptanefndar og skilningur meiri hlutans sem hér skilaði inn. Það má enginn vafi leika á þessu, þetta er sá skilningur sem við leggjum í þessa grein.