136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum nú er nokkuð sem ég held að þingmenn hafi almennt verið sammála um að fara þyrfti yfir. Hér er náttúrlega um afskaplega mikilvægt mál að ræða, hvorki meira né minna en lög um Seðlabanka Íslands. Við erum eftir því sem ég best veit — og það leiðréttir mig þá einhver sem þekkir betur til — að ræða í fyrsta skipti frumvarp án þess að nokkur viti hver samdi það. Reglan hefur verið sú að allir þingflokkar hafa komið sér saman og unnið saman að máli sem þessu, því að ég held að allir séu sammála um að hér sé um grundvallarmál að ræða og afskaplega mikilvægt.

Ég ætla ekki að fara að vitna beint í orð aðila sem áður voru í stjórnarandstöðu, hvort sem það eru samfylkingarmenn eða vinstri grænir, en vil þó minna á að hér hafa verið haldnar ræður ekki svo mínútum, ekki svo klukkustundum heldur svo sólarhringum skiptir, sem hafa varað í heila sólarhringa ef það væri tekið saman, bara frá því ég kom inn á þing, þar sem menn hafa farið yfir mikilvægi þess að hafa samráð, vinna saman að hinum ýmsu málum og ég tala nú ekki um þegar menn telja að málin séu stór og mikilvæg eins og ég held að allir séu sammála um að þetta mál sé.

Það vekur athygli að ríkisstjórn sem átti að vera sameinuð um það eða sett á eða hvernig menn leggja það upp, til þess að fara í björgunaraðgerðir, vinna fyrir heimilin og fyrirtækin, að orka hennar virðist fara í allt annað. Vinnulagið er með þeim hætti að það heyrir til algjörra undantekninga ef menn láta aðra koma að en þá sem eru í minnihlutastjórninni. Ég vek athygli á því að eftir því sem ég best veit þá eru menn hér að brjóta í blað í sögu þingsins þegar kemur að lagasetningu um Seðlabanka Íslands. Það hlýtur að vera svolítið sérstakt að við séum að fjalla um mál, og það hefur verið rætt talsvert í þinginu og á opinberum vettvangi, og það hefur ekki enn komið fram hver samdi frumvarpið. Það hefur enginn hugmynd um það. Og það kemur vægast sagt á óvart að ríkisstjórn og stjórnmálamenn sem tala út í eitt um gagnsæi, opna stjórnsýslu og slíka hluti, ef einhver hefur trúað því sem þessir aðilar hafa talað um og talað fyrir — reyndar er, ef ég man rétt, talað sérstaklega um gagnsæi í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar — að menn séu að ræða frumvarp, virðulegi forseti, sem enginn veit hver samdi. En það er algerlega ljóst að frumvarpið var samið af litlum hópi einstaklinga, og þvert á þær hefðir sem eru í þinginu þá komu ekki fulltrúar allra flokka að málinu.

Málið er svo vanbúið, virðulegi forseti, að við horfum á það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem við erum í samstarfi við, sá sig tilknúinn til að gera athugasemdir. Ég man í fljótu bragði ekki eftir því að við höfum verið í þeirri niðurlægjandi stöðu að ríkisstjórn leggi fram frumvarp og alþjóðastofnanir sjái sig tilknúnar til að gera athugasemdir og segja við löggjafann: Þið verðið aðeins að hugsa ykkar gang.

Þetta er sérstaklega merkilegt í ljósi þess að þeir ágætu þingmenn sem eru í þessari minnihlutastjórn og þeim flokkum sem styðja minnihlutastjórnina hafa lagt gríðarlega mikla áherslu á það í þessum stól, í fjölmiðlum og alls staðar að það sé lykilatriði að menn vinni saman þvert á flokkslínur og þeir sem eru í minni hluta komi að málum, og það sé lykilatriði, þegar maður hlustar á þessar ræður og les þær — það er hægt að fletta þeim upp svo hundruðum skiptir — að gagnsæið sé til staðar. Og við erum hér að ræða hvorki meira né minna en um Seðlabanka Íslands og það hefur ekki enn komið fram hver samdi frumvarpið. Hver samdi frumvarpið?

Virðulegi forseti. Lögð er sérstök áhersla á að erlendir bankar eins og Evrópski seðlabankinn fái málið ekki til umsagnar. Ég vek athygli á því að þeir sem vinna með þessum hætti eru aðilar sem hafa lagt sérstaka áherslu á það, a.m.k. í orði, að fagleg vinnubrögð séu viðhöfð. Ég held að mest ofnotuðu orð hv. þingmanna Vinstri grænna og Samfylkingarinnar séu orðin „fagleg vinnubrögð“. En þá er það bara komið í ljós hvað hv. þingmenn eiga við þegar þeir tala um fagleg vinnubrögð. (Gripið fram í.) Það er að fara þvert á allar hefðir, vinna þetta mál með litlum hópi einstaklinga sem enginn veit hverjir eru, koma hér með frumvarp sem enginn veit hver samdi og leggja sérstaka áherslu á að enginn fái að veita umsögn sem hugsanlega gæti komið með betrumbætur í málinu.

Það skal tekið fram, virðulegi forseti, að sem betur fer hefur viðskiptanefnd tekið þetta mál og nokkurn veginn skrifað það upp á nýtt. Það er líka áhyggjuefni þó að það sé auðvitað gott að þingnefnd gangi í að reyna að bjarga því sem bjargað verður, en það segir líka mikið um málið að viðskiptanefnd hafi þurft að gera það. Og eftir því sem ég best veit var samstaða um það innan viðskiptanefndar að fara í þessar miklu breytingar. Með öðrum orðum, samstaða innan viðskiptanefndar um að málið væri algerlega vanbúið.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að það er meiri hluti fyrir því í þinginu að vinna þetta mál með þessum hætti. Það er bara þannig, það liggur alveg fyrir. Það segir okkur að þetta er það sem menn meina þegar þeir tala um fagleg vinnubrögð. Það er algerlega ljóst. Það er alveg ljóst að á bak við orðin „fagleg vinnubrögð“ og „gagnsæi“ eru þessi vinnubrögð. Það er þá gott að það sé alveg kýrskýrt þegar um er að ræða hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar og menn nota þessi hugtök að þá eiga þeir við vinnubrögð eins og þessi.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt mikið en mér fannst hins vegar að ég gæti ekki annað en tekið til máls undir þessum lið og komið þessum sjónarmiðum áleiðis. Ég vil svo að lokum leyfa mér að vitna í leiðara í Fréttablaðinu í dag. Þar segir, með leyfi forseta:

„Tvíþætt aðferð ríkisstjórnarinnar við að skjóta nýjum stoðum undir peningamálastjórn landsins hefur ekki verið traustvekjandi. (MÁ: Hver er höfundur leiðarans?) Fyrri þátturinn byggðist á farsakenndum bréfasendingum forsætisráðherra til bankastjórnar Seðlabankans. Þær dugðu til að flæma einn bankastjóra úr starfi. Að öðru leyti voru þær Spaugstofufóður.

Seinni þátturinn fól í sér brottrekstur bankastjóra með flutningi frumvarps um breytingar á seðlabankalögunum. Svo var kastað höndum til lagaundirbúningsins að jafnvel Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfti að gera við það athugasemdir. Þannig voru fyrstu skrefin að nýju markmiði um aukið traust á erlendum vettvangi stigin aftur á bak.

Þær breytingar sem meiri hluti viðskiptanefndar Alþingis leggur nú til að gerðar verði á frumvarpinu eru hins vegar til bóta. Líklega þarf þó fyrr en síðar að búa betur um lagalega umgjörð æðstu stjórnar peningamála í landinu. Fram hjá því verður þó ekki litið að barið hefur verið í alvarlegustu bresti lélegs undirbúnings af hálfu forsætisráðherrans.“

Virðulegi forseti. Miðað við umræðuna og tímann sem hefur verið tekinn í þingsal mundi maður ætla að hér væri um að ræða mál sem ekki sé kannski ýkjastórt. Við þekkjum það sem hér störfum að oft renna mál í gegnum þingið, ef þannig má að orði komast, vegna þess að um þau er góð samstaða og vel hefur verið unnið að undirbúningi þeirra og menn sjá enga sérstaka ástæðu til að lengja umræðuna mikið. En hér, virðulegi forseti, erum við að fjalla um mál sem enginn veit hver samdi og lögð er sérstök áhersla á að fagstofnanir annars staðar fái ekki að koma með umsögn. Það vekur líka athygli að viðskiptaráðherrann, sem hafði stór orð um Seðlabankann hér við upphaf þessa máls, sér enga ástæðu til að vera hér og ræða það. En eftirmælin eru þau að þeir aðilar sem talað hafa um gagnsæi, fagleg vinnubrögð, og hér er ég fyrst og fremst að vísa til hv. þingmanna Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem hafa talað með þessum hætti nokkurn veginn í hverju einasta máli, að nú liggur alveg fyrir hvað þessir hv. þingmenn áttu við. Í þeirra huga eru þetta fagleg vinnubrögð. (Gripið fram í: Alla vega ekki stjórnarskrárbrot.) Það er bara þannig. Þetta eru faglegu vinnubrögðin, að koma með mál sem er svo gallað að viðskiptanefnd þarf að taka það og endurskrifa það. Frumvarpið er samið af einhverjum aðilum sem enginn veit hverjir eru, það hefur ekki komið fram í umræðunni hver samdi það, og það er passað sérstaklega upp á að þeir sem hafa mest vit á þessum málum, sambærilegir bankar, seðlabankar annars staðar í Evrópu fái ekki að koma með umsögn. Þetta eru faglegu vinnubrögðin, þetta er gagnsæið, virðulegi forseti. Og það eina góða kannski við þetta allt saman er að þá liggur það alveg hreint og klárt fyrir að þetta er gagnsæi og fagleg vinnubrögð að áliti vinstri flokkanna. Þetta er væntanlega það samráð og samvinna sem vinstri flokkarnir vilja sjá þegar þeir eru í ríkisstjórn. Það er þá a.m.k. öllum ljóst hvað átt er við þegar þessi hugtök eru notuð og við þurfum ekki að fara í neinar grafgötur með það í framtíðinni.