136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:59]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Málþóf, hv. þingmaður, það má vera að þér finnist það ekki en ég upplifi það sem slíkt. Ég upplifi það svo að hér á Alþingi sé verið að misnota tímann. Hægt væri að hafa ræður miklu styttri, miklu markvissari og með miklu meira innihaldi en verið hefur hér. Það er skoðun mín. Ég upplifi það einfaldlega þannig að hér sé verið að misbjóða almenningi í landinu með orðræðu þar sem farið er aftur og aftur með, mér liggur við að segja, sömu hlutina. Það kallast ekki gott eins og þjóðfélagið er í dag. Við þurfum á markvissri umræðu að halda og almenningur kallar á hana. Það er ákall frá almenningi að fá að vita hvað er að gerast. Gegnsæi, flott mál, ég samþykki gegnsæi, ég samþykki líka samvinnu. En ég veit ekki betur en þeir sem eru í viðskiptanefnd hafi getað komið öllum sínum málum á framfæri og þau hafi legið frammi í þinginu í nefndaráliti, reyndar minnihlutaáliti. Ég veit ekki betur en að þeir hafi fengið öll tækifæri til að koma málum á framfæri og ég veit heldur ekki betur en til hafi verið kallaðir ótal aðilar fyrir viðskiptanefnd til að skýra skoðanir sínar.