136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður biðst afsökunar á því inni í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að hafa ekki notað allan ræðutíma sinn sem honum gafst kostur á og ég held að þingflokkurinn hljóti að íhuga það mál.

Um leiðarann er það að segja að hann er merkilegur, meðal annars fyrir það að leiðarahöfundurinn er Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra lengi í stjórn sjálfstæðismanna, forsætisráðherra fyrst og síðan gegndi hann öðrum ráðuneytum ásamt Davíð Oddssyni þeim sem hér var nefndur og öðrum ráðherrum, og í leiðaranum kemur m.a. fram að breytingar meiri hluta hinnar háu viðskiptanefndar séu mjög til bóta á þessu frumvarpi og ég út af fyrir sig fagna þeirri yfirlýsingu sem þingmaður sem á að greiða atkvæði um það á eftir.