136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:28]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að frumvarp þetta til laga um Seðlabanka Íslands er komið til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka viðskiptanefnd fyrir mjög góð störf og örugga verkstjórn í þessu máli. Ég tel að breytingartillögur sem meiri hlutinn hér flytur styrki mjög meginmarkmið frumvarpsins um faglega endurskipulagningu á stjórnskipulagi bankans um einn aðalbankastjóra og skipan peningastefnunefndar, m.a. með tillögu um matsnefnd vegna ráðningar bankastjóra.

Ég ítreka þakklæti mitt til viðskiptanefndar um leið og ég undirstrika að sú breyting sem hér er verið að gera á lögum um Seðlabankann mun gegna lykilhlutverki í að endurreisa hér trúverðugleika gagnvart íslensku efnahagslífi.