136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það frumvarp sem hér er nú komið til atkvæðagreiðslu við 2. umr. er að breytast til bóta miðað við það sem upphaflega var lagt fram á þingi. Við sjálfstæðismenn gagnrýndum þetta frumvarp mjög harðlega við 1. umr., bæði á þeim grundvelli að það tæki til allt of þröngs sviðs þar sem aðeins væri skoðuð yfirstjórn bankans eða æðsta stjórnsýsla þegar þörfin væri miklu ríkari á því að skoða málin í víðara samhengi og heildstætt.

Vegna orða hæstv. forsætisráðherra áðan held ég að því miður sé þetta afskaplega lítið skref í sambandi við þær nauðsynlegu lagabreytingar sem þurfa að eiga sér stað á fjármálamarkaði á Íslandi varðandi þær eftirlitsstofnanir sem þar starfa og ég legg mikla áherslu á að það verði unnið í því máli.

Ég ætla að geta þess að við sjálfstæðismenn ætlum að biðja um að málið gangi til nefndar aftur á milli 2. og 3. umr. (Forseti hringir.) þar sem það eru ákveðnir þættir í frumvarpinu sem við teljum nauðsynlegt að verði skoðaðir nánar.