136. löggjafarþing — 86. fundur,  23. feb. 2009.

mál á dagskrá.

[17:32]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Þingfundur átti að byrja kl. 3 síðdegis og það voru níu mál á dagskrá. Ekkert þeirra var þess eðlis að það réttlætti að fundi yrði frestað án nokkurra skýringa og ég hlýt að spyrja virðulegan forseta: Hvað veldur því að þingfundi er ekki haldið áfram svo sem dagskrá þingsins kveður á um? Hvað veldur því að þingfundi er ítrekað frestað án nokkurra skýringa? Ég spyr: Hvenær er meiningin að einhver breyting verði á þessum ítrekuðu frestunum og hvað var meiningin að þingfundur stæði lengi? Við hljótum að krefjast svara varðandi þessi atriði.

Það hefur verið talað um að það skipti höfuðmáli — talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa talað um að það eigi fyrst og fremst að einhenda sér í þau mál sem máli skipti til bjargar heimilunum í landinu. Ég spyr: Hvar eru þau mál? Er það vegna þess að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) er ekki tilbúin með eitt eða neitt sem þingfundi er frestað hér? Það er engin samstaða innan ríkisstjórnarinnar um það að taka þau mál sem máli skipta á dagskrá fundarins.