136. löggjafarþing — 86. fundur,  23. feb. 2009.

mál á dagskrá.

[17:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. forseti á alla mína samúð í þessu máli. Hann hefur fengið það erfiða hlutskipti að stjórna þinginu þegar það er þannig að ríkisstjórnin kemur fram með vanbúin mál án þess að geta lagt þau fram með neinum sómasamlegum hætti. Ótal breytingartillögur við þetta frumvarp um Seðlabankann liggja fyrir og þegar þær hafa verið afgreiddar í þinginu liggur aftur fyrir að málið er svo illa undirbúið og illa úr garði gert að það þarf frekari skoðunar við. Það er undarlegt að ríkisstjórnarmeirihlutinn skuli ekki fallast á að gera það og taka í það þessa fáeinu daga.

Aðalatriðið er að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir spurði hæstv. forseta mjög einfaldra spurninga og ég held að það mundi greiða mjög fyrir þingstörfum, eins og oft var hér sagt áður og fyrr, ef reynt yrði að upplýsa með hvaða hætti hugmyndin væri að halda áfram þingstörfum. Og þótt ég meti mikils orð hv. þm. Marðar Árnasonar hefði ég satt að segja kosið að hæstv. forseti mundi svara því fyrir hönd þingsins (Forseti hringir.) hvernig yrði haldið áfram og hvernig yrði háttað þessari vinnu sem þingið vill vinna að mikilvægum málum til að rétta (Forseti hringir.) efnahag þjóðarinnar.