136. löggjafarþing — 86. fundur,  23. feb. 2009.

mál á dagskrá.

[17:39]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þér fyrir að koma fram með þessar upplýsingar. En það er alveg ótrúleg leiksýning í gangi í þinginu. Maður skilur þetta ekki, það er komið hingað aftur og aftur og þingfundi frestað. Af hverju var ekki þingfundi bara frestað í dag svo almennir þingmenn gætu snúið sér að sínum verkum? Ég bara skil ekki hvað mönnum gengur til með þessu því að ríkisstjórnin er einfaldlega að koma sér í sjálfheldu. Til hvers er verið að dramatísera þetta með þessum hætti? Af hverju er núna ekki hægt að bíða í 2–3 daga eins og Framsóknarflokkurinn hefur óskað eftir, fá niðurstöðu í það mál og vinna eðlileg verk á meðan? Af hverju getum við ekki verið að vinna hérna önnur verk á meðan? Ég skil það ekki.

Ég er tilbúinn til að ganga til allra góðra verka með hæstv. ríkisstjórn, allra góðra verka, og þess vegna er alveg fáránlegt að vera hér heilan dag, gera ekki neitt og geta ekki einu sinni fengið upplýsingar um það að hér eigi ekki að þinga. (Gripið fram í: Jæja.)