136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða ríkisbankanna.

[13:36]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og jafnframt vil ég að það komi fram að af hálfu sjálfstæðismanna er mikill stuðningur fyrir því að menn leiti leiða til að efla bankakerfið sem nú hefur lent í miklum vanda eins og við þekkjum. Við sjálfstæðismenn teljum að þetta sé mjög brýnt og munum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að svo megi verða. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. viðskiptaráðherra leiti allra leiða til að sameina fjármálastofnanir. Það er alveg rétt að það eru fleiri stofnanir en þessir þrír ríkisbankar sem hægt er að horfa til. Ég held að við þyrftum að fá svör við því eins fljótt og auðið er hvernig menn sjá fyrir sér framtíðarfyrirkomulag á bankastarfsemi í landinu. Enn fremur finnst mér við þær aðstæður sem nú eru mjög brýnt að menn líti með mjög opnum huga til þess að erlendir kröfuhafar komi inn í bankana og við fáum erlent eignarhald inn í bankana. Ég held að það muni styrkja íslenskt fjármálakerfi til muna. Ég vil því hvetja hæstv. viðskiptaráðherra til að koma þeirri vinnu af stað eins fljótt og auðið er.