136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða ríkisbankanna.

[13:38]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég held að ég þurfi ekki að hafa þetta mjög langt því að ég var í grundvallaratriðum sammála þingmanninum. Það er alveg augljóst að til að greiða úr þeim flækjum sem mynduðust við hrun bankanna þarf auðvitað að gera margt og eitt af því er að teikna upp framtíðarskipulag á þessum markaði. Við getum í rauninni ekki lokið vinnu við uppgjör gömlu bankanna og stofnsetningu þeirrar nýju nema við séum með einhverja framtíðarsýn um það hvernig þessi markaður þróast þegar ríkið skilar smám saman þessum stofnunum að mestu eða jafnvel öllu leyti til einkageirans. Þetta er því eitt af þeim verkefnum sem ég og ráðuneytið munu augljóslega horfa til þó að það geti verið einhver ágreiningur um það nákvæmlega hvernig að þeim málum verður staðið og hversu mikil hlutdeild ríkisins verður á þessum markaði næstu missirin.