136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

skuldbreyting húsnæðislána.

[13:45]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan heyrir málaflokkurinn undir hæstv. viðskiptaráðherra. Aftur á móti heyra málefni Íbúðalánasjóðs undir félags- og tryggingamálaráðuneytið. Ég hef svo sem skoðað þann þátt sem varðar lán heimilanna sem snúa að Íbúðalánasjóði en mér hefur ekki gefist tóm til að skoða tillögur Framsóknarflokksins. Þær komu fram í gær og ég vil aftur vísa til hæstv. viðskiptaráðherra sem er að vinna að þessum málum. Ég efast ekki um að hann muni skoða allar þær leiðir sem komið hafa fram og snúa að því hvernig hægt er að bregðast við til að verja heimilin. Það er mjög mikilvægt og ég veit að hæstv. viðskiptaráðherra er með slíka vinnu í gangi og hefur verið í samráði við bankana, Íbúðalánasjóð og félags- og tryggingamálaráðuneytið í þeirri vinnu. Ég geri ráð fyrir að tillögur komi þaðan á næstunni.