136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

fullgilding Árósasamningsins.

[13:48]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hélt að við hæstv. utanríkisráðherra ætluðum að fara hér saman í ræðustólinn en hann guggnaði greinilega á síðustu metrunum.

Ég vil þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir fyrirspurnina. Ég er jafnglöð og hann yfir því að ríkisstjórnin skuli nú hafa tekið þá ákvörðun að Árósasamningurinn verði fullgiltur á Íslandi. Fullgilding þýðir að hann verði að fullu leiddur í lög og það er ekki fyrr en við höfum gert þær lagabreytingar sem samningurinn krefst að við getum fullgilt hann. Við undirrituðum samninginn 1998 þegar hann var alveg glænýr, ég held að ég muni það rétt að hæstv. þáv. umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir hafi undirritað hann. Einu sinni hefur verið komið með þingsályktunartillögu hingað í þingsali og þá af hæstv. þáverandi utanríkisráðherra Halldóri Ásgrímssyni, sem lagði til að þingið staðfesti þá undirritun. Nú er svo komið að í sjálfu sér þarf ekki neina slíka þingsályktunartillögu lengur, það þarf bara að leiða í lög þá þriðju stoð sem enn hefur ekki verið leidd í lög á Íslandi og varðar aðkomu eða möguleika einstaklinga og félagasamtaka á réttlátri málsmeðferð í málum er varða umhverfið. Tvær leiðir eru færar í þeim efnum, annars vegar stjórnsýsluleið svokölluð, þ.e. í gegnum úrskurðarnefndir eða stjórnsýslunefndir, og hins vegar í gegnum dómstóla, þ.e. að opna fólki og félagasamtökum greiða leið að dómstólunum.

Í skýrslu sem gefin var út í september 2006 er nákvæmlega lýst á hvern hátt þessar lagabreytingar sem eftir er að gera þurfa að vera. Nú höfum við komið okkur saman um það, ég og hæstv. ráðherrar utanríkismála og dómsmála, að þrír lögfræðingar, einn úr hverju þessara þriggja ráðuneyta, verði settir í að gera frumvörpin klár. Þau verði að öllum líkindum blanda af þessum tveimur leiðum. Að einhverju marki getum við farið stjórnsýsluleiðina en síðan er ljóst að við þurfum að (Forseti hringir.) opna dómstólana og það verður gert með sjálfstæðum frumvörpum.