136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

[14:21]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og frummælendum tveimur sem hér hafa hafið þessa umræðu. Auðvitað er hún víðtæk en vissulega tímabær í ljósi þess hvernig verslun og viðskipti hafa breyst á umliðnum mánuðum. Ég tek undir það sem hæstv. viðskiptaráðherra sagði, verslun nýtur auðvitað góðs af öllum almennum efnahagsaðgerðum. Og það er það sem hefur verið boðað á umliðnum mánuðum.

Markmið okkar hefur verið það að ná fram vaxtalækkun, að ná því fram að rýmka gjaldeyrishöftin og ná niður verðbólgu. Við höfum haft það markmið hér ansi lengi. Að sama skapi skiptir auðvitað máli að þær aðgerðir sem við förum í, líkt og kynntar voru af Mats Josefsson í liðinni viku, leiði ekki af sér fákeppni. Fákeppni í verslun er það sem við viljum ekki horfa fram á. Samkeppnisskilyrðin þurfa að vera til staðar og forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefur einmitt vikið að því í umræðunni á liðnum mánuðum að sú kreppa sem við fórum í gæti leitt af sér erfiðari markaðsstöðu margra aðila sem þegar eru fyrir á markaði vegna ýmiss konar aðgerða sem ríkið grípur til.

Ég vil líka segja það, virðulegur forseti, að ég tel þingið standa frammi fyrir einstöku tækifæri nú með frumvarpi um endurgreiðslu á virðisaukaskatti sem er í efnahags- og skattanefnd. Nefndin á að horfa til þess að víkka það frumvarp og gera það enn betra en nú er til þess einmitt að örva verslun hér á landi og um leið iðnaðarstarfsemi sem á undir högg að sækja eins og aðrar atvinnugreinar á landinu (Forseti hringir.) í kjölfar þeirra hremminga sem við höfum staðið frammi fyrir, virðulegi forseti.