136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

[14:23]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það má líta á stöðu og starfsumhverfi íslenskrar verslunar út frá ýmsum sjónarhornum. Það er af mörgu að taka en þar sem tíminn sem ætlaður er til umræðunnar í dag er af skornum skammti vil ég beina athyglinni sérstaklega að þeim þáttum sem snúa að neytendum.

Nú er það staðreynd eftir mikið uppgangsskeið á undanförnum árum í smásöluverslun á Íslandi að hún dregst hratt saman með hratt minnkandi neyslu, óhóflegum vaxtakjörum og veikri stöðu krónunnar. Verslun ræðst auðvitað að miklu leyti af markaðslögmálunum um framboð og eftirspurn eins og sjálfstæðismönnum ætti að vera kunnugt. Neytendur höfðu flestir meira á milli handanna á árunum 2003–2007 og verslun jókst um 46%. Nú hefur komið fram að hún mun dragast saman um 30% á árunum 2007–2009, ef ég hef tekið rétt eftir, en þar sem fyrirsjánlegt er að sú mikla verslun sem byggst hafði upp muni ekki lifa af þann samdrátt sem fram undan er og einhver hluti hennar muni leggjast af væri gott að fá sýn hæstv. viðskiptaráðherra á það hvernig hann sjái fyrir sér þróun á þessum vettvangi atvinnulífsins. Þar eru stærstu aðilarnir sem versla með dagvöru og nauðsynjar líklegastir til að halda mestu viðskiptunum. Að einhverju leyti hlýtur að mega gera ráð fyrir samþjöppun og það hefur svo sem komið fram í máli ráðherrans að gert er ráð fyrir samþjöppun á þessum markaði þar sem augljóslega er auðveldara að reka stóra samhangandi samsteypu en litla sem háð er mörgum öðrum aðilum, ekki síst með hliðsjón af því að íslenski markaðurinn er frekar smár í samanburði við flest annað. Slík samþjöppun getur verið neytendum í óhag ef samkeppnin er orðin lítil sem engin, en ef svo er telur ráðherrann þá að hægt sé að grípa til samkeppnisaukandi aðgerða á komandi missirum? Í hverju geta þær verið fólgnar og ef til þeirra verður gripið verður þá hægt að tryggja arðbærar rekstrareiningar sem skila neytendum hagstæðu verði vegna þess smáa markaðar sem við búum við hérlendis?

Með öðrum orðum hef ég áhyggjur af því að hér verði mikil samþjöppun í verslun og hún geti haft neikvæðar afleiðingar fyrir neytendur með því að hér verði til fáar en stórar markaðsráðandi samsteypur. (Forseti hringir.) Ég hef áhyggjur af því að ef gripið verður til samkeppnisaukandi aðgerða geti það líka haft neikvæðar afleiðingar (Forseti hringir.) fyrir neytendur vegna þess smáa markaðar sem við búum við.