136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

[14:28]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég veld ábyggilega mörgum vonbrigðum með því að tala ekki um kvóta í dag. Ég tala hér um mál sem skiptir okkur örugglega öll miklu máli, verslanir í landinu og verslunarfyrirtæki. 16.000 manns hafa tapað atvinnu og stór hluti af því fólki er í verslunargeiranum. Hald manna er að 70 fyrirtæki séu tæknilega gjaldþrota í dag og mörg þeirra munu fara í gjaldþrot. Þegar 40% heimila lenda í gjaldþroti eða fara illa er alveg augljóst að verslun mun minnka, það dregur úr þörf fyrir verslanir og það verður samdráttur í verslun og viðskiptum. Það er ekki verið að tala um 3.800 fyrirtæki, það er jafnvel talað um 4.300 fyrirtæki sem munu lenda í erfiðleikum eða fara í þrot. Bankakerfið þarf að aðstoða í þessu en sá grunur læðist að mér að bankakerfið standi sig kannski ekki gagnvart verslunarfyrirtækjum og sérstaklega smærri verslunum og smáfyrirtækjum og þar vanti mikið upp á. Það þarf að taka til hendinni og hjálpa þar til og bankakerfið þarf að gera það. Það þarf að skuldbreyta fyrir þessi litlu fyrirtæki og sýna umburðarlyndi og annað í þeim dúr varðandi greiðslur.

Markmið ríkisstjórnarinnar með að lækka vexti er ekki farið að ganga eftir enn þá þó að það sé komið á sjötta mánuð síðan bankarnir féllu. Fyrrverandi ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn hafa ekki staðið sig í því að mæta bæði verslunarfyrirtækjum sem og öðrum fyrirtækjum í landinu. Þrátt fyrir það þurfum við að tryggja að (Forseti hringir.) samkeppni verði eðlileg í verslun eftir sem áður.