136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

[14:30]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Því miður var ekki mikið að græða á ræðu hæstv. viðskiptaráðherra. Greinilegt er að hin nýja ríkisstjórn sem ætlaði að láta verkin tala er í þagnarbindindi. Alla vega var það raunin hvað verslunina varðar.

Ég vil hins vegar freista þess að fá upplýsingar hjá hæstv. viðskiptaráðherra um þau mál sem voru í vinnslu í tíð fyrri ríkisstjórnar. Á seinni hluta síðasta árs skilaði nefnd á vegum þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra Björgvins G. Sigurðssonar af sér skýrslu um flutningsjöfnun á landsbyggðinni. Dreifingin er stærsti höfuðverkur landsbyggðarverslunarinnar og sá liður sem hefur hvað mest áhrif á stöðu hennar. En það sama á auðvitað við um verslun á landsbyggðinni eins og hér á höfuðborgarsvæðinu hvað þróunina varðar.

Ég vil því spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvað hann hyggist gera með þessa skýrslu. Hyggst hann vinna frekar úr þeim tillögum sem þar eru og hvenær við megum vænta þess að sjá eitthvað af þeim verkum?

Á síðasta ári, árinu 2008, voru einnig á fjárlögum fjárframlög til flutningsjöfnunar sem ekki voru nýtt. Ég vil því spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort ríkisstjórnin hyggist nýta fjárveitingarnar á þessu ári og þá kannski í samhengi við þann vanda sem dreifbýlisverslunin er í um þessar mundir.