136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

[14:37]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Í þeirri stöðu sem við Íslendingar erum nú í þurfum við að átta okkur á því á hvaða grunni við ætlum að byggja nýtt Ísland. Það á auðvitað líka við um það efnahagslega umhverfi verslunar sem við ræðum hér. Við skulum ekki loka augunum fyrir því að í góðærinu var ábatasamt að stunda verslun hér á Íslandi og það má ráða af þeim miklu verslunarhöllum sem risu á undanförnum árum. Ekki síður þeim stórhýsum sem voru í byggingu og bígerð þegar allt fraus hér í haust.

Gífurleg offjárfesting hefur verið í verslunarhúsnæði og nálægt fimmfalt meira verslunarrými er hér á landi en í nágrannalöndunum miðað við fólksfjölda. Fjöldi verslana er sem sagt eins og hér búi yfir milljón manns.

Þetta er auðvitað ein ástæða þess að höggið er þyngra. Ég vil vitna til árbókar verslunarinnar sem gefin var út síðasta haust þar sem kemur fram að á tíu árum, 1997–2007, jókst fermetrafjöldi í verslunum um 52% á landinu öllu. Um miðjan júlí í fyrra var enn í byggingu og búið að veita byggingarleyfi fyrir um 220 þús. fermetrum af verslunarhúsnæði, sem samsvarar fjórtánfaldri Kringlunni. Þannig að sú leið sem við vorum á þegar bankahrunið varð kemur auðvitað niður á þessum geira núna, ekki síst þeim sem unnu þarna.

Ég vil benda á að þegar að Bauhaus ætlaði að opna síðastliðið haust sóttu 1.200 manns um 150 störf þar. Í októberlok á síðasta ári var búið að segja öllum upp sem ráðnir höfðu verið (Forseti hringir.) og búið að fresta opnun verslunarinnar (Forseti hringir.) sem átti að vera stærsta byggingarvöruverslun á öllum Norðurlöndum. (Forseti hringir.) Þannig höguðum við okkur (Forseti hringir.) í þessu gróðæri og það megum við (Forseti hringir.) ekki gera aftur.