136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

[14:39]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna umræðunni sem hér hefur farið fram og vil benda á að sama hvar í atvinnugreinum við stöndum þá er atvinnuleysið skelfilegt. Það er skelfilegt fyrir einstaklinga og fjölskyldur og við þurfum að gæta þess að reyna að skapa sem flest atvinnutækifæri ef nokkur kostur er.

Á Íslandi eru vextir allt of háir og það er staðreynd sem við getum ekki horft fram hjá. Þeir eru allt of háir og það þarf að taka á þeim strax. En það gerist ekki fyrr en búið er að koma bankakerfinu á rétt ról aftur. Seðlabankanum og bankastarfsemi almennt í landinu.

Mikill samdráttur er í verslun sem og öðrum greinum. Bæði vegna gengisþróunar og ýmissa annarra þátta. Afkoma fólks hefur versnað mikið og það bitnar auðvitað á versluninni eins og alls staðar annars staðar.

Ef bankakerfið styrkist þá styrkist afkoma fólks. Verðbólga og vextir verða að lækka og um leið og það gerist batnar staða fólks og fyrirtækja.

Fákeppni er mjög slæm, bæði fyrir fjölskyldur og verslun, og á móti henni verður að berjast með öllum tiltækum ráðum og það verður að gerast strax.

Það er alveg sama hvert við lítum. Alls staðar hefur verið samdráttur og hann bitnar fyrst og fremst á fjölskyldunum og sálarlífi þeirra og það er þáttur sem þarf líka að taka inn í dæmið.