136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[15:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir þá staðfestu sem hann og meðflutningsmenn hans hafa sýnt á undangengnum árum með flutningi þessa frumvarps. Það er margt sem kemur í ljós í bankahruninu núna, margur ósiðurinn sem við Íslendingar höfum komið okkur upp í efnahags- og fjármálakerfinu og þessar persónulegu ábyrgðir eru eitt af því.

Ég vil taka undir það sem þingmaðurinn sagði að það hefur áreiðanlega aldrei verið brýnna en nú að lögfesta reglur um slíkar persónulegu ábyrgðir enda þótt þeim hafi fækkað eitthvað með því að á undangengnum árum hefur mönnum orðið ljóst að þeir verða að standa skil á þeim ábyrgðum sem þeir skrifa undir og gangast í ábyrgð fyrir aðra menn ef greiðslufall verður hjá þeim. Þessar reglur sem hér eru færðar í frumvarpsform eru mjög áhugaverðar og ég tek undir að þetta mál hefur fengið ítarlega skoðun í nefnd undanfarin þing og þess vegna ætti að vera hægt að nýta þann skamma tíma sem nú er til vors til að reyna að afgreiða þetta mál út úr þinginu og ég mun leggja mig fram um það í hv. viðskiptanefnd. Enn fremur að nefndin muni skoða sérreglur vegna bankahrunsins eins og hv. þingmaður nefndi.

Ég get ekki farið úr þessum ræðustól, herra forseti, án þess að taka undir það sem hv. þingmaður sagði að við í þessu landi höfum hagsmuni kröfuhafa ofar öllu öðru. Það er að koma í ljós núna, sérstaklega varðandi verðtrygginguna, að það er eins og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar nái aðeins til hagsmuna og þeirra eigna sem kröfuhafar telja sig eiga til að mynda í húsnæði fólks meðan enginn slær skjaldborg um þann eignarhluta og þá eign sem húseigandinn hefur verið að nurla saman í og borga af kannski árum saman og minnkar og minnkar þegar verðtryggingin eykst, þegar verðbótaþátturinn eykst vegna vaxandi verðbólgu. Þetta ábyrgðarkerfi er séríslenskt fyrirbæri eins og svo margt annað og það var orðað í hv. viðskiptanefnd ekki alls fyrir löngu hvernig menn settu svona tryggingar undir hlutina. Það var ekki nóg með að menn væru með belti og axlabönd var sagt heldur hefðu menn til öryggis fallhlíf í kjallaranum og það er það sem þessi persónulega ábyrgð oft er. Menn borga vexti, menn setja veð fyrir lánum sínum og eru jafnvel með verðtryggingu og svo kemur einhver krafa um ábyrgðarmann og kannski fleiri en einn og fleiri en tvo.

Það er mjög mikilvægt að þessum ábyrgðum fækki, um þær gildi stífar reglur og það miðast sem sagt allt að því að lántakandi sjálfur og veð sem hann veitir standi undir lánveitingum. Í þessum reglum líkar mér vel að ábyrgð lánveitenda gagnvart ábyrgðarmönnum og gagnvart því að lána fé er sérstaklega skýrð. Ég tek því undir það og heiti liðsinni til þess að hægt verði að ræða málið í hv. viðskiptanefnd og reyna helst að afgreiða það fyrir vorið ef tími vinnst til.