136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[15:33]
Horfa

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær undirtektir sem hafa verið við málið. Eins og hér hefur komið fram hefur þetta mál þroskast lengi, það hefur fengið margar umsagnir, umfjöllun og smám saman komist í þann búning sem það er í í dag.

Ég tel, virðulegi forseti, að málið sé orðið það gott að það geti farið í gegn og ég leyfi mér að segja að ýmis frumvörp hafa farið í gegn sem ekki hafa hlotið jafnvandaða yfirferð og mikla vinnu og það sem hér er um að ræða — frumvarp sem varðar hagsmuni jafnmargra, einstaklinga og fjölskyldna, og hugmynd sem er ætluð til þess að skapa meiri sátt og meira öryggi í íslensku samfélagi. Því eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti á áðan í ágætri ræðu sem hann flutti þá er hið félagslega öryggi og fjárhagslega öryggi tengt órofaböndum.

Þeim sem lenda í því að á þá falla lán sem þeir hafa skrifað upp á fyrir vini og vandamenn hefur mörgum reynst það erfitt. Mörg vinaböndin hafa slitnað vegna slíkra hluta og oft og tíðum hefur því fylgt mikil sorg sem kannski hefði mátt koma í veg fyrir. Ef vinnan og aðgerðirnar og reglurnar væru skýrari, hlutirnir væru gagnsæir og allt væri upp á borðum þá held ég að koma hefði mátt í veg fyrir margan harmleikinn. Ég tel þess vegna að málið sem hér er til umræðu sé eitt af þeim sem mikilvægt er að ljúka áður en þingið fer heim.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal sem orðaði það á þann hátt að það er nánast andhverfa orðsins „ábyrgðarmenn“ sem hefur orðið afleiðing þessa kerfis, þ.e. að lántakendur og lánveitendur hafa kannski báðir orðið dálítið ábyrgðarlausir í gerðum sínum, aginn og krafan um fagleg og vönduð vinnubrögð er frá þeim tekið vegna þess að þeir vita að það er nefnilega einhver þriðji maður sem á endanum þarf kannski að standa skil á þeim skuldbindingum sem þeir tveir gera samning um og skrifa upp á. Það er mjög sorglegt því að í mörgum tilvikum, sem er ástæðulaust að rekja hér, hafa einstaklingar verið fengnir til að skrifa upp á á allt að því fölskum forsendum því að oft og tíðum hafa lánastofnanir verið með það algerlega á hreinu að fyrirtæki eða einstaklingar munu ekki geta staðið við skuldbindingar sínar þegar þeir kalla til þriðja aðila til að gerast ábyrgðarmenn á þessum fjárskuldbindingum.

Það er einmitt slíkt agaleysi sem gerir það svo að verkum að fjármálakerfið skaðast kannski mest sjálft til lengri tíma litið. Þar verða fagleg vinnubrögð að vera til staðar og kerfi af þessu tagi tryggir ekki fagleg vinnubrögð. Það er langur vegur frá því. Það er verið að búa til öryggi fyrir útvalda sem gerir það að verkum að viðkomandi starfa ekki og vinna ekki eins vel í sínum málum, að undirbúningi að sínum gjörningum og ella hefði orðið. Það er mitt mat að þetta sé ekki bara áskrift að ábyrgðarleysi heldur sé þetta stórskaðlegt kerfi nema að það sé gagnsætt og skýrt og réttur manna skýr.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, að lengi vel var í þessu frumvarpi krafa um að um hver áramót væri sent yfirlit yfir ábyrgðir. Ég held að bankarnir hafi núna, margir hverjir, tekið það upp og sendi það. En ég held að það sé full ástæða til að hnykkja á því í þessu frumvarpi og einkanlega ef samstaða næst í hv. viðskiptanefnd um að senda málið áfram og láta það ganga til atkvæða í þinginu og láta á það reyna hvort stuðningur er meðal þingmanna fyrir því að klára málið. Ég tel mikilvægt að það verði gert.

En svona rétt í lokin, af því að hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi í framsögu sinni að það væri gott að hafa mál af þessum toga á dagskránni, þetta væri mikilvægt mál og kannski eitt það mikilvægasta sem við ræddum hér af því að ríkisstjórnin væri með svo fá mál, þá er annað mál í viðskiptanefnd sem er mál Seðlabanka Íslands sem samflokksmenn hv. þingmanns Péturs H. Blöndals lögðu eindregið til að kæmi ekki til umræðu á hinu háa Alþingi. Það felst því dálítil andhverfa í því sem hv. þingmaður sagði. En um leið vil ég líka lýsa ánægju minni yfir því að hv. þingmaður hefur líka sýnt einurð og festu í því að reyna að koma þessu máli áfram sem við flytjum hér í áttunda sinn.

Ég held að þetta mál sé fullþroskað og fullþróað og eigi því fullt erindi inn í þingið aftur. Þeir einu sem hafa í raun og veru mælt þessu máli í mót í gegnum tíðina hafa verið fjármálastofnanir sem smám saman hafa reyndar reynt að feta þá slóð að minnka ábyrgðarmannakerfið, en í dag er þetta orðið þannig að fjármálakerfið er að einhverju leyti sýkt vegna ábyrgðarmannakerfisins. Fjármálastofnanir eru meira eða minna allar komnar í hendur ríkisins og ef nú er ekki rétti tíminn til að stokka upp, setja gagnsæjar reglur og tryggja fagleg vinnubrögð, þá veit ég ekki, virðulegi forseti, hvenær rétti tíminn er til þess.

Ég ítreka þakkir fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur farið fram og þær frómu óskir sem þingmenn hafa sett fram um að málið verði að lögum fyrir vorið.