136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

innlend fóðurframleiðsla.

195. mál
[15:58]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um innlenda fóðurframleiðslu og í upphafi ræðu minnar vil ég þakka fyrir þessa þingsályktunartillögu. Það er gagnlegt fyrir samfélagið að ræða hana og ég held að það sé gott að við hugum að þeim málum sem reifuð eru í greinargerð með tillögunni. Þess vegna fagna ég henni og þakka hv. frummælanda Þuríði Backman fyrir að hafa flutt hana.

Mig langar að fara nokkrum orðum um þingsályktunartillöguna og þá greinargerð sem henni fylgir og byrja á því að nefna það, herra forseti, að fyrir nokkrum árum voru umræður um matvælaverð á Alþingi þar sem okkur var birt skýrsla frá Evrópusambandinu um matarverð á Íslandi og í öðrum Evrópusambandslöndum. Ef ég man rétt þá fór þáverandi hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir yfir þau mál, þingmaður Samfylkingarinnar. Þar var mikið lagt upp úr því að matarverð væri hátt á Íslandi og miklu lægra í Evrópusambandslöndum og þess vegna ættum við að ganga í Evrópusambandið til að lækka matarreikning heimilanna á Íslandi.

Þetta vil ég nefna vegna þess að á þeim tíma var ýmislegt sem sýndi fram á að slík úttekt og slíkur samjöfnuður var ekki alveg með réttu, bæði vegna þess hvernig gengið var skráð á þeim tíma þar sem allt var ódýrt í innflutningi til landsins og mjög auðvelt og á þeim tíma þekktust ekki þeir sjúkdómar sem við höfum kynnst síðar meir í Evrópu og víðar í heiminum, t.d. fuglaflensa o.fl. Það hefur því gríðarlega margt breyst og síðast en ekki síst hefur dunið á efnahagshrun, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim og því þurfum við að skoða hlutina upp á nýtt. En einmitt í þeirri umræðu sem ég vitnaði til áðan, um matarverð á Íslandi, flutti ég ræðu. Þetta var þegar innflutningurinn var ódýr og allir höfðu mestan hag af því og áhuga á að flytja allt inn og því væri óþarfi að stunda landbúnað þótt annað hafi komið í ljós. Þetta var um haust og það var sláturtíð og ég sagði í ræðu minni að nú væri sláturtíð og það væri skynsamlegt og ódýrt að taka slátur og það ætti fólk að gera. Það var hlegið og það var gert grín að þessu og skemmtiþættir í fjölmiðlunum, hvort það hétu ekki-fréttir eða hvað það nú var, hentu mikið grín að þessu að það skyldi vera hugsað til þess að við þyrftum að sýna hagkvæmni og útsjónarsemi varðandi matarkaup og matarvenjur okkar Íslendinga.

Ég ritaði nýverið grein sem ég nefndi „Hlátur, grátur, slátur“ og þar fer ég inn á þessi mál. Og kannski var ég að hluta til á undan bankahruninu að átta mig á því að það væri ekki bara hægt að hafa gaman í góðærinu. Menn þyrftu að horfa til gömlu gildanna hlutast til þess að við nýttum okkar gömlu matarvenjur og gömlu hefðir og þannig gætum við hugsað til framtíðar fyrir þessa þjóð hvað varðar matarinnkaupin.

Í tillögunni sjálfri kemur fram í greinargerð að gera þurfi rannsóknir varðandi innlenda kornframleiðslu. Undangengin ár hafa verið gerðar miklar rannsóknir og það hefur verið gríðarleg framþróun á Íslandi í framleiðslu á byggi og korni til eldis á dýrum. Mjólkurframleiðendur eru farnir að stunda kornrækt í síauknum mæli. Það er farið að framleiða kornafurðir til baksturs hér á landi, til neytenda beint til manneldis. Aðilar sem stunda loðdýrarækt eru farnir að framleiða bygg og meðhöndla og það er verið að þróa aðferðir til að byggið nýtist betur fyrir yngri dýr sem hafa ófullkomnari meltingu, t.d. loðdýr, svín og fugla. Slíkar rannsóknir hafa verið í gangi og heilfóðurframleiðsla fyrir mjólkurkýr er til og þarna er í rauninni heilmikil vinna í gangi.

Hv. frummælandi þessarar þingsályktunartillögu, Þuríður Backman, nefnir í greinargerð heyköggla og það er rétt eins og kemur fram í greinargerðinni að heykögglaverksmiðjur voru hér á landi fyrir nokkuð mörgum árum. Þær byggðust hins vegar á því að nota gríðarlega mikla olíu við að afla hráefnisins, þurrka það og köggla. Það þarf því að fara vel yfir hvernig sú sjálfbærni er sem talað er um í greinargerðinni, hvort við eigum ekki að stefna að því að nota frekar okkar orku sem er hitaorkan, gufan, vatnsorkan sem framleidd er úr fallvötnunum. Ég held að það færi betur hjá Vinstri grænum að tala meira um að nota einmitt þá orku en innflutta olíuorku til að framleiða fóður úr okkar moldu á Íslandi. Þetta eru þær athugasemdir sem ég vil að komi fram gagnvart greinargerðinni, herra forseti.

Ég hóf ræðu mína á því að nefna vilja Samfylkingarinnar til aðildar að Evrópusambandinu og að flytja inn matvörur. Hv. flutningsmaður situr á bekk með Samfylkingunni í minnihlutastjórn en mér finnst þessi þingsályktunartillaga í rauninni ganga þvert á samstarfsflokkinn og því vil ég spyrja hv. frummælanda hvort þetta hafi verið rætt innan stjórnarflokkanna, einmitt þessi þingsályktunartillaga og sá góði andi sem í henni er, þó að ég hafi nokkrar athugasemdir við einstaka þætti. Það væri mjög athyglisvert að heyra hvort Samfylkingin er sammála inntaki þingsályktunartillögunnar sem ég óttast að sé kannski ekki með þeim hætti sem ég hefði viljað sjá.

Raforkuverð var rætt fyrr í umræðunni og nú mun vera ljóst, og kannski því miður, já, því miður eftir síðustu fjárlagagerð hefur verið verulega dregið úr aðstoð við íslenska garðyrkjubændur varðandi flutningskostnað á orku. Það kostar nefnilega heilmikið að flytja orkuna. Eitt er að framleiða hana og hitt er að flytja hana frá virkjun til þess notanda og ég hygg að það sé engin stóriðja grænni og vænni en einmitt garðyrkjan sem framleiðir allt árið, bæði blóm og ekki síst matvæli eins og tómata, gúrkur og paprikur o.fl. Ég spyr hvort hv. frummælandi telji ekki rétt að endurskoða þennan þátt þegar fjárlögin verða opnuð á þessu ári með tilliti til þess að við erum að framleiða matvöru sem er klárlega holl og góð. Það eru engin aukaefni, það er ekki erfðabreytt, þetta er eins góð vara og hugsast getur og náttúrlega algerlega gjaldeyrissparandi og — að ég tali nú ekki um að orkan kemur úr fallvötnunum sem fellur okkur svo vel, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur sem hlýðir á mál mitt.