136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[13:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Skattkerfið og bótakerfið mynda rammann sem fjölskyldur og einstaklingar lifa í og mikilvægt er eftir þau áföll sem þjóðin hefur orðið fyrir að þetta sé skynsamlega og réttlátlega hannað.

Ég hef verið í forustu fyrir nefnd sem hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra skipaði fyrir rúmu ári í því skyni að bæta greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu, sem í dag er afskaplega flókið og mjög óréttlátt. Í umræðu sem fór fram 5. febrúar 2009 sagði hæstv. heilbrigðisráðherra, með leyfi frú forseta:

„Hins vegar verð ég að segja að umræðan [þ.e. í nefndinni] hefur beinst í farveg sem ég hef verið mjög gagnrýninn á, þ.e. að búa til ákveðinn grunn en opna síðan á markaðsvætt kerfi.“

Hann segir sem sagt að það sé gagnrýni vert að þarna sé verið að búa til ákveðinn grunn að markaðsvæddu kerfi. Vegna þeirra orða langar mig að spyrja hv. þm. Árna Pál Árnason, sem einnig átti sæti í nefndinni, hvort hann sé sammála þessu og hvort hann telji ekki að mikilvægt sé að nefndin ljúki störfum sínum þannig að greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu sé takmörkuð eins og tilefni stóð til. En í dag borga margir langt yfir 100 þús. kr., jafnvel 200 þús. kr., á ári í heilbrigðiskerfinu og meiningin er að reyna að takmarka það og einfalda kerfið verulega.