136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[13:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegur forseti. Sú nefnd, sem við hv. þm. Pétur H. Blöndal og hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson sátum í, hafði með höndum að koma á nýju heildarkerfi um greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu. Markmiðið var að koma á einu heildstæðu kerfi fyrir greiðsluþátttöku jafnt vegna lyfja og læknisþjónustu. Í dag er þessi greiðsluþátttaka mjög misjöfn eftir því hvaða sjúkdóma fólk er svo „óheppið“ eða „heppið“ að fá. Sum lyf eru ókeypis við sumum sjúkdómum og við öðrum ekki. Þetta getur leitt til alls konar niðurstaðna sem eru mjög óheppilegar fyrir fólk. Þess vegna skiptir miklu að reyna að finna réttlátt kerfi sem jafnar kostnaðinn út með það grunnmarkmið að leiðarljósi að þeir sem eru mikið veikir og oft, borgi minna en hinir sem sjaldan eru veikir borgi meira. Það væri hin réttláta leið.

Eftir því sem ég skil hæstv. heilbrigðisráðherra stendur til að taka tillit til niðurstöðu nefndarinnar hvað varðar lyfjaþáttinn í heilbrigðisráðuneytinu. Hann hefur í hyggju að koma því áfram, því það sé í sjálfu sér eini þátturinn í starfi nefndarinnar sem er nokkurn veginn tilbúinn. Við komumst að öðru leyti ekki mjög áfram með málið og þar vil ég líka kenna um endurteknum tilraunum hv. þm. Péturs H. Blöndals til að reyna að fella greiðsluþátttöku á spítölum undir þetta verkefni. Ég lagðist mjög eindregið gegn því í nefndarstarfinu og taldi ekki að til nefndarstarfsins hefði verið stofnað með það að leiðarljósi að reyna að finna nýjar leiðir til að leggja álögur á sjúklinga á sjúkrahúsum. Þvert á móti átti að finna heildstætt kerfi til að taka á þeirri greiðsluþátttöku sem nú þegar (Forseti hringir.) er fyrir hendi, (Forseti hringir.) annars vegar vegna sérfræðiþjónustu og hins vegar vegna lyfja.