136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[13:38]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, sagði í ræðu á Alþingi þann 20. desember, með leyfi forseta:

„Nokkrum mínútum á Alþingi hefur verið eytt fyrir minna en það sem hér er undir þannig að ég er ekki feiminn við að tefja hv. þingmenn í örfáar mínútur í viðbót þegar þvílíkir þjóðarhagsmunir eru í húfi.“

Þá ræddum við þingmenn frumvarp mitt, sem varð að lögum, um fjárhagslega fyrirgreiðslu ríkisins til að styðja við bakið á málsóknum gegn breskum stjórnvöldum vegna beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslendingum og íslenskum hagsmunum.

Frá því að Bretar beittu hryðjuverkalögum á okkur Íslendinga hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að draga bæri bresk stjórnvöld fyrir dómstóla til að svara fyrir gerðir sínar en einnig til að Íslendingar sýndu með afgerandi og táknrænum hætti að þeir sættu sig ekki við að vera meðhöndlaðir sem hryðjuverkamenn. Undir þá skoðun mína tóku þingmenn þegar þeir samþykktu frumvarp mitt sem lög frá Alþingi og ég hef ekki orðið var við annað en að þjóðin sé sama sinnis.

Nú ber hins vegar svo við að í breska blaðinu Financial Times er haft eftir hæstv. viðskiptaráðherra Gylfa Magnússyni að engin áform séu uppi af hálfu íslenskra stjórnvalda að leita réttar síns fyrir dómstólum vegna málsins. Breska fjármálaráðuneytið hefur auðvitað fagnað þessum ummælum og því er lýst í blaðinu að nú sé lokið einni hörðustu deilu Íslands og Bretlands frá því í þorskastríðunum. Það kemur mér verulega á óvart og veldur miklum vonbrigðum, svo ekki sé meira sagt, að ákvarðanir um að Íslendingar ætli ekki — þrátt fyrir þá gríðarlegu hagsmuni sem í húfi eru fyrir þjóðina, almenning, bankakerfið, stolt íslensku þjóðarinnar og sjálfsmynd hennar — að höfða mál gegn breskum stjórnvöldum og að sú ákvörðun skyldi vera kynnt af hæstv. viðskiptaráðherra í erlendu blaði. Samkvæmt upplýsingum mínum liggur ríkisstjórnarsamþykkt ekki að baki þessarar yfirlýsingar hæstv. viðskiptaráðherra. Ákvörðunin hefur hvorki verið rædd á vettvangi utanríkismálanefndar né á Alþingi og ég hlýt að spyrja hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, varaformann utanríkisnefndar, (Forseti hringir.) hvort hún telji eðlileg vinnubrögð að málefni sem varða ríka þjóðarhagsmuni Íslendinga, um það að við ætlum ekki að leita réttar okkar, séu ekki rædd á Alþingi.