136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[13:44]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vissi ekki að enn væri eftirspurn eftir mér í störfum þingsins, gott er til þess að vita að Grétar Mar hefur áhuga á mér. (Gripið fram í: Háttvirtur.)

En um þetta mál, virðulegur forseti og hv. þingmaður, fjárlaganefnd hefur sett niður fund á mánudaginn þar sem fulltrúar menntamálaráðuneytisins munu m.a. koma og gera grein fyrir málinu, sem á sér forsögu.

Á sínum tíma var gerður samningur á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um þetta hús og um leið var stofnað enn eitt E-hluta fyrirtækið, Austurhöfn-TR ehf. sem er í E-hluta ríkisreiknings og tengist þessu heildarverkefni. Ég geri ráð fyrir því að í samræmi við fjárreiðulögin hafi aðilar í sjálfu sér vitað að hverju þeir gengu en um leið tel ég fullljóst, miðað við þá umræðu sem húsið hefur fengið á umliðnum árum, — ekki bara síðustu mánuði heldur á umliðnum árum — að þinginu sé gerð grein fyrir þessu og við getum þá rætt það í þingsölum ef menn telja svo.

Ég vil hins vegar ítreka það sem ég tilkynnti í síðustu viku að þingið þarf alla jafnan að vera á tánum varðandi eftirlitið sem það á að halda úti gagnvart fjárreiðum ríkisins og ekki hvað síst gagnvart E-hluta fyrirtækjum ríkisins. E-hluta fyrirtækin falla einnig undir fjárreiðulögin og ég tók þess vegna ákvörðun um að kalla eftir minnisblaðinu og fá fulltrúa menntamálaráðuneytisins á fund fjárlaganefndar og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að það verði góður fundur eins og alla jafna í fjárlaganefndinni.