136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[13:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég beini orðum mínum til formanns efnahags- og skattanefndar, hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, og spyr um afstöðu hans og Samfylkingarinnar til þess að hefja vaxtalækkunarferli sem allra fyrst. Háir stýrivextir eru að sliga íslensk heimili og fyrirtæki. Hið háa vaxtastig í landinu er langt komið með að þurrka upp allt lausafé íslenskra fyrirtækja og stefna fjölda heimila í greiðsluþrot.

Sem dæmi má nefna að Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, lýsti því yfir í fréttum útvarpsins í dag að það væri lífsspursmál fyrir þjóðina að keyra vextina niður og það eins og skot. Á sama tíma og helstu viðskiptalönd okkar eru að bregðast við minnkandi eftirspurn með því að lækka stýrivexti sína, í sumum tilvikum í allt að 0%, býr íslenskur almenningur við okurvexti. Stýrivextir Seðlabankans eru 18% og algengt er að fólk sé að borga 25–26% vexti af yfirdráttarlánum.

Stýrivextir Seðlabankans hafa verið þetta háir frá því að gengið var frá samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um neyðarlán til íslenska ríkisins. Öll rök hníga að því að hefja lækkunarferlið strax, og þau eru einna helst, eins og við höfum áþreifanlega orðið vör við, mikill samdráttur í íslensku efnahagslífi, verðbólgan er farin að lækka, vöruskiptajöfnuður er jákvæður, atvinnuleysi hefur ekki mælst í þvílíkum hæðum lengi og minnkandi eftirspurn er í samfélaginu. Vaxtalækkunin var því ein af aðaltillögum okkar framsóknarmanna um aðgerðir til hjálpar efnahagslífinu.

Í stöðuskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í desember kom fram að Seðlabankinn hefði óskað eftir því við sjóðinn að hefja vaxtalækkunarferlið þá þegar en engin svör hafa borist frá sjóðnum. Lítið hefur heyrst frá ríkisstjórnarflokkunum sjálfum, bæði þeim sem sátu í síðustu ríkisstjórn og nú þeirri sem Samfylkingin leiðir. Einna helst virðist sem þetta sé tengt væntanlegu brotthvarfi núverandi aðalbankastjóra þrátt fyrir að fram komi í stöðuskýrslunni að Seðlabankinn hefur þegar óskað eftir því að byrja að lækka vexti.

Ég spyr: Hefur erindi verið sent til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða (Forseti hringir.) hafa menn fyrst og fremst verið að treysta á hugsanalestur?