136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[13:51]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hyggst spyrja hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, sem eina fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins hér í salnum, um ummæli Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, í gærkvöldi. Þar tjáði Davíð þjóðinni að hann hefði varað við því á fundi 30. september að bankarnir væru allir á leiðinni í þrot. Sá ríkisstjórnarfundur mun nú hafa verið daginn eftir, ef ég skil þetta rétt, að Glitnir var fallinn.

Davíð sagði líka að þá hefðu að vísu ekki verið nein ráð sem hægt hefði verið að færa fram en hann hefði ítrekað varað ríkisstjórnina við eða einstaka ráðherra. Þetta virðast ráðherrar ekki kannast við og ég spyr nú, vegna þess að það kynni að vera að Davíð Oddsson hefði rætt það sérstaklega við einhverja af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins að þetta væri svo — hann hefur þá gert það í einhverjum einkasamtölum því eins og menn vita var allt í lagi í lok mars, á ársfundi Seðlabankans, og allt var líka í lagi í ræðu sem Davíð flutti 10. apríl. Í maí kom út skýrsla um fjárhagslegan stöðugleika hjá Seðlabankanum þar sem allt var í góðu lagi og Seðlabankinn veitti viðskiptabönkunum há lán rétt fyrir þá atburði sem við tölum um þrátt fyrir hinar meintu aðvaranir Davíðs Oddssonar á þeim tíma. Ég spyr hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson hvort hann viti eitthvað um þetta, hvort hann hafi verið með í þeim hópi ráðherra sem Davíð aðvaraði eða hvort Davíð Oddsson fer með staðlausa stafi.