136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[13:56]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Rætt hefur verið um málsókn af hálfu Íslendinga á hendur breskum stjórnvöldum. Það er grundvallaratriði að Íslendingar sæki mál gegn Bretum. Það er grundvallaratriði fyrir hönd metnaðar Íslendinga og sjálfstæðis Íslendinga. Bretar sýndu okkur ófyrirleitinn dónaskap með því að setja hryðjuverkalög á Íslendinga og reyndar fylgdu Evrópuþjóðirnar í Evrópusambandinu því allar eftir og sýndu okkur dónaskap og faðmlag sem við eigum ekki að þola.

En við eigum að beina þessu gegn Bretum af fullri einurð. Það er sannfæring mín að það er krafa fólks á Íslandi, almennings á Íslandi, að það verði gert. Gert af fullum þunga. Þó að leikfléttur réttarkerfisins kynnu að veikja stöðu okkar í því máli þá eigum við ekki að láta slíkt yfir okkur ganga en sýna einurð og festu og gefa hvergi eftir. Annaðhvort erum við sjálfstæð þjóð í þessu landi með eðli okkar þjóðar að leiðarljósi (Gripið fram í.) eða að við eigum hreinlega að taka julluna og sigla til suðurs.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Mörður Árnason segir, í svona málum eigum við ekki að víkja. Við eigum að sækja og sækja fast. Við eigum að verja okkur og verja okkur út á við og nýta það tækifæri til þess að vekja athygli á öðrum þáttum sem eru jákvæðir og sterkir í okkar samfélagi. Og þess vegna er það krafa að slíkt sér gert.

Það var sorglegt hvernig hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sló úr og í þegar hún fjallaði um málflutning hæstv. (Forseti hringir.) viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússonar.