136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[14:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að taka hér örlitla umræðu um greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu, þá nefnd sem hv. þm. Pétur H. Blöndal veitti forstöðu og varaformaður nefndarinnar var núverandi félags- og tryggingamálaráðherra, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Þessi nefnd var sett á laggirnar til að betrumbæta gatslitið kerfi og reyna að jafna þátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu öllu, ekki bara, hv. þm. Árni Páll Árnason, lyfjamálum heldur öllu heilbrigðiskerfinu eins og það leggur sig.

Vandamálið við þetta kerfi í dag er að það er gatslitið og því miður mismunar það fólki eftir sjúkdómum og meðferðum. Það er einfalt, það mismunar fólki eftir sjúkdómum og meðferðum. Heilbrigðiskerfið íslenska gerir það og þessi nefnd átti að lagfæra þann mismun, koma með tillögur um að breyta. Það hlýtur, hæstv. forseti, að skjóta verulega skökku við að nú, þegar við höfum í ríkisstjórn heilbrigðisráðherra frá Vinstri grænum, hæstv. Ögmund Jónasson, sem margoft og oftar en kannski flestir talar um að bæta þurfi kjör þeirra sem höllum fæti standa, skuli hann sem heilbrigðisráðherra, þegar honum virkilega gefst tækifæri til að vinna þessa vinnu, að jafna greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu, ætla að fara einhverja aðra leið, taka einn þátt undan en ekki kerfið í heild sinni, halda áfram að halda inni „forréttindahópum“ og halda áfram að mismuna sjúklingum með þátttöku í heilbrigðiskerfinu.

Þetta er með ólíkindum, hæstv. forseti, og ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnina (Forseti hringir.) alla að halda til streitu þessari nefnd og klára þetta verkefni.