136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

mælendaskrá í umræðu um störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Uppröðun verður þá að vera með þeim hætti, þegar svona háttar, að mönnum gefist tækifæri á að svara. Hér er staðhæft af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins að tilbúnar hafi verið tillögur sem séu núna vegna stjórnarskipta í uppnámi. Það er bara hreinlega rangt. Ástæðan fyrir því að ekki var hægt að ganga frá tillögum fyrir stjórnarslit var sú að hv. þm. Pétur H. Blöndal vildi blanda þar inn í aukinni kostnaðarþátttöku fólks á sjúkrahúsum. Þess vegna komum við því máli ekki í höfn.

Ég hlýt að gera um það kröfu — þegar sett er fram fyrirspurn, henni beint til ákveðins þingmanns sem svarar, síðan kemur fyrirspyrjandinn aftur í lokin — að þá fái sá sem fyrirspurninni er beint að að svara. Það hlýtur að vera grundvallaratriði í uppröðun þessa dagskrárliðar af hálfu forseta. Ég geri athugasemd við þetta og tel hér ekki rétt með farið í fundarstjórn af hálfu forseta.