136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

skattamál.

294. mál
[14:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. fjármálaráðherra. Ég bíð eins og aðrir í ofvæni eftir því að sjá aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu sem lítið bólar á. Meðan ekkert liggur fyrir lifir almenningur í óvissu og á erfitt með að gera áætlanir sínar til lengri eða skemmri tíma. Ein óvissan sem uppi er að mínu mati varðar áform ríkisstjórnarinnar um skattheimtu. Við núverandi efnahagsaðstæður er eðlilegt að leitað sé allra leiða við að draga úr útgjöldum ríkisins og endurskoða tekjupósta þar. Það er eðlilegt, en það skiptir ákaflega miklu máli við þessar aðstæður hvernig það er gert.

Þegar áætlanir venjulegs fólks eru í uppnámi vegna hækkandi lána og lækkandi launa er mikilvægt að stjórnvöld auki ekki á óvissuna. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra aðeins um fyrirætlanir hans í skattamálum. Ég beini sjónum mínum sérstaklega að hinum svokallaða, reyndar oft ranglega nefndur svo, hátekjuskatti. Ég tek strax fram hér í upphafi til að forðast allan misskilning að áhyggjur mínar beinast fyrst og síðast að venjulegu vinnandi fólki, venjulegum skattgreiðendum. Fólk hefur gert skuldbindingar, m.a. í húsnæðismálum, miðað við þær tekjur sem það hefur og því slæmt að hafa yfirvofandi skattheimtu í óvissu. Þegar hinn svokallaði hátekjuskattur var afnuminn hér á landi árið 2006 var hann allt annað en hátekjuskattur og lagðist á tekjur fólks yfir 350.000 kr. Þetta var vondur skattur og vinnuletjandi og bitnaði ekki síst á ungu fólki, barnafjölskyldum, fólki sem vann mikið, oft tímabundið, við að koma sér þaki yfir höfuðið. Framkvæmdin var líka með þeim hætti að skatturinn var greiddur eftir á þannig að sveiflur í launum milli ára eða tímabundnar launabreytingar gátu komið illa við fólk. Fólk greiddi skattinn ári síðar þegar launin höfðu kannski lækkað mikið og þetta kom sér oft illa.

Hæstv. fjármálaráðherra var fyrr í vetur einn flutningsmanna frumvarps sem hafði það að marki að leggja þrepaskipt álag á hærri tekjur, sem sagt var markmiðið að koma hér aftur á hátekjuskatti í gegnum fjölþrepaskattkerfi. Þannig liggur það fyrir að ráðherranum hugnast þessi leið afar vel.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í Morgunblaðinu þann 4. febrúar sl. að við skattahækkanir sem hugsanlega gætu orðið af hálfu þessarar ríkisstjórnar þyrfti fólk með meðaltekjur ekki að óttast að settur yrði á hátekjuskattur sem miðaðist við einhverjar lágar tekjur. Þetta var allt reyndar mjög óljóst. Forsætisráðherrann skilgreindi ekki frekar hvað fælist í meðaltekjum, reyndar ekki heldur hvað fælist í lágum tekjum eða háum ef því er að skipta. Formaður Samfylkingarinnar sagði á hinn bóginn fyrir jól að hátekjuskattur væri fyrst og síðast táknrænn skattur sem gæfi ekki mikið í aðra hönd, væntanlega vegna þess að tekjumörkin þurfa að vera það lág til að skatturinn fari að gefa af sér þær tekjur sem um munar. Þetta stangast allt saman á og þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort hann geti útskýrt þetta betur fyrir mér og greint mér frá fyrirætlunum sínum og flokks hans í þessum efnum.

Fyrirspurn mín til fjármálaráðherra er:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að lagður verði á svokallaður „hátekjuskattur“? Ef svo er, hver verða tekjumörkin og hvað er áætlað (Forseti hringir.) að slíkur skattur skili ríkissjóði miklum tekjum?