136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

skattamál.

294. mál
[14:19]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir snarpa og góða ræðu. Nú er það svo, þó að menn tali öðruvísi, að íslenska tekjuskattskerfið er í mörgum þrepum. Það er í raun og veru síþrepakerfi vegna þess að persónuafslátturinn sér til þess að hin raunverulega prósenta af heildartekjum er lægst hjá þeim sem hafa lægstar tekjur, en þó yfir skattleysismörkum, og hæst á þá sem hafa hærri tekjur og fer stigvaxandi. Það sem skiptir miklu máli í þessu er þess vegna upphæð persónuafsláttarins. Ef persónuafslátturinn er lágur verður skattinnheimtan þannig að hinir hæstu borga lægri prósentu en ella væri ef hann er hár. Það sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði á sínum 18 árum í fjármálaráðuneytinu var að lækka alltaf persónuafsláttinn þannig að ekki var eingöngu um það að ræða að hinn svonefndi hátekjuskattur væri afnuminn heldur var skatturinn lækkaður á hátekjumönnum með þeim hætti. Ég tel að hátekjuskattur komi til (Forseti hringir.) greina sem ein ráðstöfunin í okkar efnum en þá verður það að vera í heiðri að það sé raunverulegur hátekjuskattur (Forseti hringir.) og ekki skattur á meðaltekjur eins og hv. fyrirspyrjandi tók reyndar fram hér.