136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

skattamál.

294. mál
[14:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hreinskilið svar. Það fór ekki fram hjá neinum sem á þetta hlustaði að hann lofaði hátekjuskatti og skattahækkunum, bæði fyrir hönd Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, ef þeir fengju tækifæri til þess eftir kosningar og það ber að þakka slíka hreinskilni.

Það er líka rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni, að skattkerfið sem við höfum núna er stighækkandi. Það þýðir að eftir því sem menn hafa hærri tekjur greiða þeir hærra hlutfall. Það er þetta samspil prósentunnar og persónuafsláttarins sem gerir það að verkum. Vandinn við það, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að setja fleiri þrep, eins og hátekjuskattinn, er sá að það eykur mjög hættuna á jaðaráhrifum. Menn töluðu áður um jaðarskatta og það var mjög áberandi í kosningabaráttunni, t.d. 1995, vegna þess að menn töpuðu hreinlega á því að hækka í tekjum og kom það mjög illa niður á ungu fólki, sérstaklega ungu fólki með miklar skuldir. Það er alveg ljóst að ef menn (Forseti hringir.) ætla að fjölga skattþrepum þá er sú hætta fyrir hendi, en það er búið að lofa þessum skatti eins og hér hefur komið fram.