136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

skattamál.

294. mál
[14:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin svo langt sem þau ná. Ég fékk frekar gamla góða ræðu frá hæstv. ráðherra sem ég hef heyrt áður og svaraði kannski ekki spurningunni beint. Ég tók það sérstaklega fram í fyrirspurn minni til að forðast allan misskilning, og kannski til að forðast að fá þá ræðu frá hæstv. ráðherra sem ég svo fékk, að ég er að hugsa um hag venjulegs vinnandi fólks, fólks sem vinnur baki brotnu við að koma sér upp þaki yfir höfuðið og hefur, hvort sem það er varanlega eða tímabundið, tekjur yfir einhverjum ákveðnum mörkum. Það kemur sér mjög bagalega fyrir þetta fólk, sem lendir kannski í því núna að missa vinnu, missa tekjur og lækka í launum að nú sé líka yfirvofandi skattahækkun.

Hæstv. fjármálaráðherra tók af allan vafa um það að sú ríkisstjórn, sem nú á eftir 60 daga í starfi, ætli að beita sér fyrir skattahækkunum og ég fagna því. En það liggur líka fyrir og hv. þm. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, staðfesti það að Samfylkingin væri tilbúin til að beita sér fyrir hátekjuskatti, fá hún umboð til, og hæstv. fjármálaráðherra gerði það líka. Það er ágætt, það liggur þá fyrir að þetta er sú leið sem þessir flokkar mundu beita sér fyrir eftir kosningar.

Mig langar til að ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra af því að mér fannst henni ekki svarað: Hverjar telur ráðherra að séu lágar eða meðaltekjur? Það er mjög mikilvægt að kjósendur viti þetta vegna þess að það sem ég hafði eftir hæstv. forsætisráðherra í fyrri ræðu minni: „Við munum vissulega standa þannig að málum að fólk með meðaltekjur þurfi ekki að óttast að settur verði á hátekjuskattur sem miðast við einhverjar lágar tekjur.“ Þetta er allt mjög óljóst og ég mundi gjarnan vilja að hæstv. ráðherra svaraði þessu fyrir sinn hatt.