136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

gjaldfrjáls göng.

304. mál
[14:46]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það eru tvær hliðar á þessu máli eins og öllum öðrum. Í fyrsta lagi voru göngin mikið framfaraspor fyrir Vesturland. Þau tengdu það við höfuðborgarsvæðið í eitt atvinnusvæði, ferðatími styttist og ferðakostnaður lækkaði. Þannig að jafnvel þótt greitt væri gjaldið í göngin þá sparaði fólk með því að nota þessa samgöngubót. Það er ávinningurinn miðað við það sem var.

Hin hliðin er sú að þetta er frávik frá því sem er að öðru leyti, t.d. á þjóðvegi 1. Það er hvergi greitt gjald fyrir að fara um þann þjóðveg þó að þar hafi verið ráðist í mjög dýrar vegabætur. Það er ljóst af athugunum sem Vífill Karlsson hagfræðingur hefur gert að gjaldið hefur áhrif til þess að draga úr ávinningnum af göngunum á Vesturlandi og það skekkir samkeppnisstöðu Vesturlands gagnvart öðrum nágrannasvæðum höfuðborgarsvæðisins, (Forseti hringir.) t.d. Suðurnesjum og Suðurlandi.